Innlent

Segir Þjóðskrá hafa brotið stjórnarskrá í máli Harrietar Cardew

ingvar haraldsson skrifar
Harriet fékk breskt neyðarvegabréf svo fjölskyldan kæmist í frí til Frakklands fyrr í sumar.
Harriet fékk breskt neyðarvegabréf svo fjölskyldan kæmist í frí til Frakklands fyrr í sumar. vísir/valli
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Cardew-fjölskyldunnar, hefur sent greinargerð til innanríkisráðneytisins vegna ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um að synja Harriet Cardew um vegabréf. Foreldrar Harrietar kærðu úrskurð Þjóðskrár fyrr í sumar.

Í greinargerðinni segir að í lögum nr. 136/1998 sé kveðið á um að hver Íslendingur eigi rétt á að fá útgefið vegabréf. Þjóðskrá hafi því ekki haft lagaheimild til að neita Harriet um vegabréf og þar með svipta hana ferðafrelsi.

Jafnframt segir að nöfn manna séu hluti af sjálfsmynd þeirra sem vernduð sé með ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi og mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að.

Þar kemur einnig fram að útlendingar geti fengið íslenskt ríkisfang og þá haldið nöfnum sínum. Að neita Harriet um vegabréf sé því brot á jafnræðisreglu stjórnarskrá.

Í greinargerðinni er fullyrt að ákvörðun mannanafnanefndar um að hafna nafninu Harriet eigi sér ekki lagastoð. Nafnið taki bæði eignarfallsendingu og eigi sér tæplega aldarlanga sögu hér á landi en nafnið var fyrst skráð hér á landi árið 1928.

Innanríkisráðuneytið mun úrskurða um hvort ákvörðun Þjóðskrár hafi staðist lög en ekki hafa fengist upplýsingar um hvenær málið verður tekið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×