Skoðun

Til hamingju með daginn!

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar
Ein birtingarmynd þess að búa í góðu, frjálsu og umburðarlyndu samfélagi er sá miklu fjöldi sem árlega tekur þátt í gleðigöngunni, sem í dag mun setja fallegan svip á miðborgina. Þar koma saman samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og transfólk með fjölskyldum sínum, vinum og stuðningsmönnum til að fagna fjölbreytileikanum og minna á jöfn tækifæri og réttindi allra.

Við Íslendingar getum verið afar stolt af því að búa í samfélagi sem virðir einstaklinga, óháð kynhneigð. Nær daglega lesum við um ofsóknir á hendur samkynhneigðum víða um heim, jafnvel ofsóknir og árásir sem ógna lífi einstaklinganna. Hér á landi fögnum við því hins vegar hversu miklum árangri hefur verið náð í réttindabaráttu samkynhneigðra. Baráttan hér á landi hefur staðið í áratugi. Hún hefur verið málefnaleg, uppbyggileg og drifin áfram af hugrökkum einstaklingum sem hafa aldrei gefist upp á því að berjast fyrir því sem er rétt. Árangurinn sem náðst hefur hér á landi hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og er Ísland að verða ákveðin fyrirmynd annarra þjóða í réttindum og viðhorfi til samkynhneigðra.

Þessi fyrirmyndarbarátta samkynhneigðra hefur ekki einungis leitt til aukinna réttinda og tækifæra samkynhneigðra, heldur einnig jákvæðra breytinga á hugarfari samfélagsins alls. Réttindi einstaklinga eru nefnilega ekki aðeins fólgin í réttindum sem bundin eru í lög og reglur, heldur einnig í hugarfari og viðhorfi samfélaga. Réttindabarátta samkynhneigðra hefur þannig líka haft mikil og jákvæð áhrif á okkur öll. Samfélagið allt er þannig frjálslyndara og umburðarlyndara vegna baráttu samkynhneigðra fyrir betri heimi. Fyrir það ber að þakka ekki síst með því að halda samstöðunni og baráttunni fyrir jöfnum rétti allra áfram.

Því segi ég við alla – og sérstaklega þá sem í dag sækja gleðigönguna til að fagna fjölbreytileikanum: Til hamingju með daginn!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×