Skoðun

Takk!

Sóley Tómasdóttir skrifar
Hinsegin dögum er nýlokið. Þeir voru haldnir í sextánda sinn, og gengu sem fyrr út á að draga fram fjölbreytileikann, fagna honum og þeim réttindum sem áunnist hafa. Gleðigangan var stórkostleg að vanda og talið er að um 90 þúsund manns hafi safnast saman í miðborginni.

Hinsegin dagar hafa líka annað og alvarlegra hlutverk. Að minna á þau réttindi sem ekki hafa náðst og óréttlætið sem viðgengst bæði hér á Íslandi og úti í heimi, en ekki síður að uppræta fordóma og fáfræði gagnvart fjölbreytileika mannlífsins. Hinsegin dagar þjónuðu þessu markmiði vel í ár, m.a. með mikilvægri fræðslu um þann fjölbreytta hóp sem rúmast undir hinsegin regnhlífinni.

Hin nýstofnuðu samtök Intersex Ísland hafa vakið verðskuldaða athygli. Intersex fólk fellur ekki undir hefðbundna skilgreiningu á kynjunum af líffræðilegum ástæðum. Intersex hefur alltaf verið til, en það er ekki fyrr en nú þegar talsvert er liðið á 21. öldina að farið er að tala um réttindi og stöðu intersex fólks á opinberum vettvangi á Íslandi.

Staða intersex fólks sýnir okkur hversu mikla áherslu við sem samfélag leggjum á að flokka fólk eftir kyni. Kyn barns er það fyrsta sem spurt er um eftir fæðingu þess, nafngift er háð kyni, opinberar skrár gera ráð fyrir tveimur kynjum og svona mætti lengi telja. En það er ekki nóg. Enn eru framkvæmdar skurðaðgerðir á heilbrigðum kynfærum nýfæddra barna til að aðlaga þau stöðluðum hugmyndum um útlit typpis eða píku. Intersex fólk krefst nú viðurkenningar á tilvist sinni og sjálfsákvörðunarréttar yfir eigin líkama. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa.

Hinsegin dagar hafa sett brýn og grafalvarleg mál á dagskrá, enn eina ferðina, í bland við gleði og fagnaðarlæti. Til að hægt sé að fagna fjölbreytileikanum er mikilvægt að þekkja hann og skilja. Hinsegin fólk og hinsegin dagar hafa breytt miklu hvað það varðar. Fyrir það ber að þakka. Takk.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×