Lífið

Senda friðarákall út í heim með jógaþoni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Salka Margrét Sigurðardóttir stendur ásamt Pop up Yoga fyrir Jógathoni um helgina í Hljómskálagarðinum.
Salka Margrét Sigurðardóttir stendur ásamt Pop up Yoga fyrir Jógathoni um helgina í Hljómskálagarðinum.
„Við tökumst á við það neikvæða með hinu jákvæða og þess vegna völdum við jóga. Jóga er alltaf friður og ró,“ segir Salka Margrét Sigurðardóttir, formaður Ungmennaráðs UN Women sem stendur fyrir maraþoni í jóga á laugardaginn í Hljómskálagarðinum, eða svokölluðu jógaþoni. „Ofbeldi er aldrei friður. Við viljum senda þau skilaboð út í samfélagið að ofbeldi gegn konum eigi ekki að líðast.“

Verkefnið er samstarfsverkefni ungmennaráðs UN Women og Pop Up Yoga Reykjavík. Sólarhyllingin, sem einnig er þekkt undir nafninu surya namaskara, var í upphafi eins konar óður til sólarinnar og ávallt gerð við sólarupprás. Nú er hún gjarnan nýtt sem upphitunaræfing í jógatímum og þá hyllir maður sólina sem býr hið innra. Sólarhyllingin er oft sögð fylla fólk góðri orku.

Jógaþonið lýsir sér þannig að þátttakendur gera 108 sólarhyllingar og senda þannig í sameiningu friðarákall út í heiminn um afnám ofbeldis gegn konum. Þrír jógakennarar sjá um að leiða hópinn og skipta þeir á milli sín sólarhyllingunum. 108 hefur í gegnum söguna og í hinum ýmsu trúarbrögðum verið talin heilög tala. Þegar gerðar eru 108 sólarhyllingar er það talið til þess fallið að fagna breytingum eða til þess að boða frið, virðingu og skilning.

„Byrjendur geta alveg verið með eins og reyndir jógar,“ útskýrir Salka. „Það verður hægt að hvíla sig á milli og þú átt ekki að ofreyna þig.“

Skráning fer fram á unwomen.is og skráningargjald er 2.900 krónur, sem rennur óskipt til verkefna UN Women. Hægt er að skrá sig til 11.30 en viðburðurinn hefst klukkan 12.

Mikilvægt er að fólk skrái sig með fyrirvara og undirbúi sig bæði líkamlega og andlega. „Þetta er mikil andleg upplifun. Það myndast svo mikill samtakamáttur þegar margir hugsa það sama.“

Ungmennaráð UN Women var stofnað fyrir aðeins tveimur árum en þegar hefur ráðið haldið vel heppnaða viðburði. „Við viljum vekja athygli á málefnum kvenna og UN Women fyrir ungu fólki. Ungt fólk getur haft áhrif með vitundarvakningu og framlagi sínu til samfélagsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.