Lífið

Prýðir forsíðu portúgalska Elle

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Svala lind hefur starfað sem fyrirsæta síðan hún var 17 ára gömul og gerir það gott í hinum harða fyrirsætuheimi. Hún er búsett í Lissabon og líkar mjög vel.
Svala lind hefur starfað sem fyrirsæta síðan hún var 17 ára gömul og gerir það gott í hinum harða fyrirsætuheimi. Hún er búsett í Lissabon og líkar mjög vel.
„Tískumarkaðurinn hér er ekki stór og hef ég líklega þess vegna náð að mynda góð sambönd við kúnna, stílista og ljósmyndara,“ segir fyrirsætan Svala Lind sem er að gera það gott í hinum stóra heimi þar sem hún starfar sem fyrirsæta.

Svala Lind er búsett í Lissabon í Portúgal en hún hóf fyrirsætuferilinn 17 ára gömul hjá Eskimo Models og fór í fyrsta sinn til Spánar að vinna. Hún er að gera það gott í hinum harða fyrirsætaheimi en hún prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs portúgalska Elle, en frægar fyrirsætur á borð við Cara Delavingne, Gisele Bundchen og Kate Moss hafa áður prýtt forsíðu þessa vinsæla glanstímarits.

„Ég byrjaði að vinna sem fyrirsæta í fullu starfi árið 2011 og þá í London. Þáverandi skrifstofan mín þar sendi mig til Lissabon sumarið 2012 en ég féll algjörlega fyrir borginni og lít á hana sem mitt annað heimili í dag. L'Agence skrifstofan mín þar hefur líka reynst mér mjög vel og kynnt mig fyrir nýjum mörkuðum eins og í Tókýó, Istanbúl, Aþenu og nú er ég að vinna í Tel Avív,“ segir Svala Lind, sem er önnum kafin þessa dagana. Svala segist vera mjög heppin og þá sérstaklega er hún hrifin af heimshornaflakkinu sem fylgir starfinu. 

Flott forsíða Svala Lind á forsíðu nýjasta tölublaðs portúgalska Elle.
„Ég hef verið svo heppin að fá að ferðast víða og kynnast ólíkum menningarheimum en það finnst mér einmitt skemmtilegast við starfið. Það er líka gaman að vinna með hópi af hugmyndaríku fólki sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera.“

Þótt hún sé búsett erlendis er Svala dugleg að koma heim, hlaða batteríin og heimsækja fjölskyldu og vini. Hún getur vel hugsað sér að starfa við eitthvað annað en fyrirsætustörf í framtíðinni en núna einbeitir hún sér að vinnunni á meðan vel gengur. 

„Stór þáttur í þessu starfi er auðvitað að huga að heilsunni en ég hef lært mikið um næringu og líkamsrækt og gæti vel hugsað mér að vinna við eitthvað tengt því. En svo lengi sem það gengur vel ætla ég að halda áfram módelstörfunum. Ég bý svo vel að eiga góða fjölskyldu og vini sem styðja við bakið á mér og það er alltaf jafn gaman að koma heim til Íslands.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.