Lífið

Pottþéttur Vesalingur í Bandaríkjunum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhann Schram Reed er að hefja mastersnám við Jacobs School of Music í Indiana-háskóla.
Jóhann Schram Reed er að hefja mastersnám við Jacobs School of Music í Indiana-háskóla. mynd/einkasafn
„Yfir heildina litið er þetta eitt af mínum uppáhaldsverkefnum hingað til. Þeir sem þekkja til sýningarinnar vita hvað hún er stór og að hún krefst ekki einungis pottþéttra söngvara í aðalhlutverkunum, heldur er hún stútfull af smærri, þó mikilvægum hlutverkum ásamt að sjálfsögðu stórum kór,“ segir Jóhann Schram Reed sem hefur vakið mikla lukku í hlutverki lögregluforingjans Javerts í söngleiknum Les Misérables, eða Vesalingunum, sem settur var upp í Bandaríkjunum í sumar.

Sýningin var hluti af Bay View Music Festival, tónlistarhátíð sem haldin er hvert sumar í Bay View í Michigan og voru söngvarar og leikarar ráðnir frá öllum kimum landsins. „Þannig var að ég þekkti leikstjórann frá eldri sýningum sem við höfðum unnið að saman. Einn daginn fékk ég símtal frá honum þar sem hann tjáði mér að hann hefði misst einn af leikurunum sínum á síðustu stundu og spurði hvort ég hefði áhuga á að taka við hlutverki Javerts. Það tók ekki langan tíma fyrir mig að grípa það tækifæri. Við bjuggum svo öll saman í Bay View meðan á æfingum og sýningum stóð. Sýningin var sett upp í leikhúsi í Bay View, um 1.700 manna húsi, sem við vorum svo lánsöm að geta fyllt hvert einasta kvöld,“ útskýrir Jóhann. Hann fékk mikið lof í fjölmiðlum vestanhafs fyrir leik sinn og söng.



Jóhann Schram Reed í hlutverki í Javerts.
Jóhann er af músíkölskum ættum og var á kafi í tónlist á Íslandi áður en hann fór til Bandaríkjanna. „Eftir að hafa sungið og leikið tónlist í nokkur ár á Íslandi flutti ég til Kaliforníu haustið 2010 og hóf B.M. (Bachelor of Music) nám þar. Það nám kláraði ég síðastliðið vor og hef mastersnám í sömu grein eftir rúma viku. Síðan ég flutti hef ég notið þess heiðurs að fá að spreyta mig á ýmsum óperusviðum hér í Kaliforníu og víðar,“ segir Jóhann.

Hann er þessa dagana að flytja hálfa leið yfir Bandaríkin, frá Kaliforníu til Bloomington í Indiana-fylki, þar sem hann er að hefja mastersnám við Jacobs School of Music, innan Indiana University. „Ég sé fram á tveggja til þriggja ára nám þar í einu stærsta og mest spennandi óperuprógrammi í Bandaríkjunum og þó víðar væri leitað. Töluvert af íslenskum óperusöngvurum hefur farið í gegnum sama söngnám í Indiana, þar á meðal faðir minn, Keith Reed.

Þess má til gamans geta að unnusta Jóhanns, Emily Dyer, sem er sópransöngkona, er á leið í sama nám í Indiana University.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.