Innlent

Endurskoða innra eftirlit vegna njósna

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Þrátt fyrir að skráningar- og skýrslukerfi lögreglunnar, LÖKE, geymi upplýsingar um allar uppflettingar sem gerðar eru er ekkert virkt eftirlit með misnotkun á kerfinu.

Heimildir Fréttablaðsins herma að vegna ákæru sem þingfest var fyrir héraðsdómi í gær á hendur lögreglumanni fyrir misnotkun á LÖKE-kerfinu hafi embætti Ríkislögreglustjóra til skoðunar að taka upp hertari reglur um notkun kerfisins, jafnvel með því fyrirkomulagi að skýringu verði að gefa fyrir uppflettingum í hvert sinn.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að skoða verði hvernig farið verði með upplýsingar í LÖKE-kerfinu en Árni Albertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður tæknimála hjá Ríkislögreglustjóra, segir að í dag hafi embættið eftirlit með því hverjir fái auknar aðgangsheimildir í kerfinu.

Árni segir enn fremur að ekki sé vinnandi vegur að fylgjast með öllum uppflettingum vegna fjölda þeirra.

„Það koma á hverju ári upp grunsemdir um að upplýsingar hafi lekið. Þá metur viðkomandi lögregluembætti hvort þeir vilja gera eitthvað í málinu,“ segir Árni.

Lögreglumaðurinn sem kom fyrir dómara í gær og neitaði sök er sakaður um að hafa á sex ára tímabili flett upp nöfnum 45 kvenna í LÖKE-gagnagrunninum og skoðað þar upplýsingar um konurnar, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns. Umræddur lögreglumaður neitar sök. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×