Skoðun

Mamma och pappa kann flytta men jag blir kvar

Eyjólfur Þorkelsson skrifar
Sérnám í læknisfræði er langt og dýrt. Árum saman hefur íslenskt samfélag hins vegar notið þess að íslenskir læknar hafa sérmenntað sig erlendis án nokkurra fjárútláta íslenska ríkisins en eðlilega með talsverðum kostnaði viðkomandi fjölskyldu. Því það er erfitt að flytja fjölskylduna milli landa; komast inn í kerfið, finna nýja vinnu og skóla við allra hæfi, meta hvort nýju launin svari kostnaði við flutninginn. Ekki síst er erfitt að slíta vinabönd barna og fullorðinna. Þessir erfiðleikar eru stærsta ógn íslensks heilbrigðiskerfis núna og í nánustu framtíð.

Sérnám í læknisfræði tekur 5-7 ár auk þess sem flestir vinna nokkrum árum lengur til að bæta við sig þekkingu og færni sem gagnast þeim sjálfum og sjúklingum þeirra. Eftir 7-10 ár er hins vegar orðið mjög erfitt að slíta vinaböndin, og verður æ erfiðara með hverju árinu sem líður. Reynsla flestra er sú að ljúki barn grunnskóla og hefji menntaskólanám erlendis sé nær borin von að það ílendist á Íslandi, þó fjölskyldan flytji aftur til baka. Hví þá að flytja yfirhöfuð?

Launaþróun lækna hefur ekki haldið í við launaþróun annarra háskólamenntaðra stétta og eru íslenskir læknar algjörir eftirbátar lækna í nágrannalöndum hvað laun varðar. Enda hafa snöggtum færri læknar flutt til Íslands en nokkru sinni á síðari árum. Starfandi læknum á Íslandi hefur því fækkað og meðalaldur þeirra hækkað mikið. Samfara þessu eykst álagið og vinnugleðin minnkar í neikvæðum spíral sem verður að rjúfa eigi ekki að fara illa.

Því meðan flutningur svarar ekki kostnaði og vinnuálag skerðir lífsgæði fjölskyldunnar mun fólk ekki sjá sér hag í að flytja heim. Og því lengur sem það dvelur úti, þeim mun ólíklegra er að það flytji nokkru sinni heim.

Tími smáskammtalækninga er liðinn. Kyrrstaða og „þetta reddast“ er ávísun á afturför. Stjórnvöld þurfa nú þegar að fá lækna til að starfa hér – að öðrum kosti að axla ábyrgðina á því að íslenska heilbrigðiskerfið drabbaðist niður á þeirra vakt.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×