Innlent

Tveir af hverjum þremur vilja að Hanna Birna hætti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir segir það ekki koma á óvart að andstæðingar ríkisstjórnarinnar vilji hana burt.
Hanna Birna Kristjánsdóttir segir það ekki koma á óvart að andstæðingar ríkisstjórnarinnar vilji hana burt.
Sextíu og sjö prósent þeirra sem afstöðu tóku telja að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra eigi að segja af sér embættinu. 33 prósent telja að hún eigi ekki að segja af sér. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins.

Séu svörin skoðuð í heild kemur fram að 53% aðspurðra telja að Hanna Birna ætti að segja af sér. 26% telja að hún eigi ekki að segja af sér en 21% voru óákveðnir í afstöðu sinni. Séu niðurstöður skoðaðar eftir stjórnmálaflokkum sést að 51% framsóknarmanna sem afstöðu taka vilja að hún segi af sér og 45% sjálfstæðismanna. 86% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar vilja að hún segi af sér, 83% stuðningsmanna Samfylkingarinnar, 88% stuðningsmanna VG og 90% stuðningsmanna Pírata.

„Það kemur ekkert á óvart að andstæðingar ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins telji að ég eigi að gera eitthvað annað en að vera í póltík. Undanfarnir dagar hafa verið mjög erfiðir og umræðan óvægin og erfið og ég held að þetta endurspegli það,“ sagði Hanna Birna þegar niðurstöðurnar voru bornar undir hana í gærkvöldi.

Spurt var: Finnst þér að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi að segja af sér embætti innanríkisráðherra? Svarmöguleikarnir voru Já, nei, óákveðinn og svara ekki.

Hringt var í 1.056 manns þar til náðist í 650 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 27. ágúst og fimmtudaginn 28. ágúst. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×