Erlent

Þrír til viðbótar í einangrun á Spáni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Norskur læknir fluttur á sjúkrahús í Ósló frá Síerra Leóne, þar sem hann smitaðist af ebóluveirunni.
Norskur læknir fluttur á sjúkrahús í Ósló frá Síerra Leóne, þar sem hann smitaðist af ebóluveirunni. fréttablaðið/AP
Þrír menn til viðbótar hafa verið settir í einangrun á sjúkrahúsi á Spáni vegna hættu á að þeir hafi smitast af ebóluveirunni. Að auki er grannt fylgst með um fimmtíu manns.

Allt eru þetta viðbrögð við veikindum hjúkrunarfræðings á Spáni, konu á fimmtugsaldri sem smitaðist þegar hún vann að hjúkrun tveggja spænskra presta. Þeir létust báðir af völdum ebóluveirunnar, en höfðu smitast í Afríku þar sem þeir unnu að aðhlynningu ebólusmitaðra.

Konan smitaðist þrátt fyrir varúðarráðstafanir á sjúkrahúsinu, en þær varúðarráðstafanir virðast ekki hafa verið samkvæmt ýtrustu kröfum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Umræða hefur því vaknað á Spáni um það, hvort þær öryggisráðstafanir sem notaðar eru þar séu nægilega góðar.

Konan var í tveimur hlífðarbúningum, með hanska og augnhlífar, en spænska dagblaðið El País hefur það eftir heilbrigðisstarfsfólki að hlífðarbúningarnir hafi ekki verið algerlega vatnsheldir. Ekki hafi heldur verið notaður sérstakur öndunarbúnaður, sem hefði tryggt betur að smit gæti ekki borist í konuna.

Að sögn spænskra yfirvalda er hafin rannsókn á málinu. Um tuttugu heilbrigðisstarfsmenn komu hins vegar í gær saman fyrir utan sjúkrahúsið í Madrid, þar sem konan starfaði, og kröfðust þess að Ana Mato heilbrigðisráðherra segði af sér vegna málsins.

Eiginmaður hjúkrunarkonunnar hefur verið lagður inn á sjúkrahús í öryggisskyni þótt engin einkenni hafi komið í ljós. Hjúkrunarkonan er sögð vera með hita en hafa engin önnur einkenni ebólusmits. Hún fór í frí eftir að hafa sinnt prestinum, sem lést, en var lögð inn á sjúkrahús á mánudag.

Hjúkrunarkonan á Spáni er sú fyrsta sem smitast hefur af veirunni utan Afríku. Nærri 400 heilbrigðisstarfsmenn hafa hins vegar látist af völdum veirunnar í Líberíu, Gíneu og Síerra Leóne, en þessi þrjú lönd hafa farið verst út úr faraldrinum.

Alls hefur faraldurinn kostað meira en 3.500 manns lífið og óttast er að útbreiðslan geti farið að ná til annarra heimshluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×