Lífið

Bragðupplifun af sögu kokteilanna

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ólafur fer yfir sögu kokteilanna á námskeiði.
Ólafur fer yfir sögu kokteilanna á námskeiði.
„Ég er búinn að vera að nördast í kokteilum liggur við frá blautu barnsbeini, það liggur við að ég hafi fengið kokteil á pelann,“ segir Ólafur Örn Ólafsson hlæjandi, sem ásamt Ými Björgvini Arthúrssyni stendur fyrir kokteilnámskeiði fyrir hópa.

Námskeiðin eru tveggja klukkustunda löng og þar er sögð saga kokteilana og fólki leyft að smakka kokteila frá ýmsum tímum.

„Þetta er í raun fyrirlestur þar sem er farið í gegnum sögu kokteila til dagsins í dag með nokkrum stoppum þar sem ég hristi eða bý til drykki frá mismunandi tímabilum, þannig að fólk fái bragðupplifun af sögunni,“ segir Ólafur, sem hefur brennandi áhuga á kokteilum og býr yfir miklum fróðleik um þá.

„Ég gæti talað um þetta í marga daga en þurfti að ná þessu niður í tvo tíma. Mér finnst þetta ansi skemmtilegt,“ segir hann.

Námskeiðin eru haldin á veitingastaðnum Uno sem sér um að hafa smárétti með kokteilunum.

Þau eru ætluð hópum og nú þegar hafa nokkrir hópar setið námskeiðið. „Þeir sem hafa komið eru ánægðir með þetta og við höldum þessu áfram meðan fólk vill koma,“ segir hann. Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á Facebook- síðunni Glögg & Grín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×