Lífið

Selja ónotuð hipsteraföt

Margrét Erla Maack verður með úrval af fallegum flíkum.
Margrét Erla Maack verður með úrval af fallegum flíkum.
„Ég tók meistaramánaðartiltekt í skápnum og þetta er afrakstur þess,“ segir Margrét Erla Maack, en hún verður með fatamarkað á laugardaginn ásamt Berglindi Pétursdóttur, sem er betur þekkt sem bloggarinn Berglind festival, Steinþóri, manninum hennar, og Birni Teitssyni.

„Ég ætla að selja föt sem hafa verið í uppáhaldi lengi. Mikið af þessu eru föt sem ég notaði í sjónvarpinu og kominn tími á að einhver annar en ég sjáist í þeim,“ segir Margrét, en meðal þess sem hún ætlar að selja er kjóll sem hún var í á Edduverðlaununum 2012.

„Ég verð líka með mikið af búningum og grínfötum sem ég er hætt að nota, svo allir verðandi grínarar eru velkomnir,“ segir Margrét. „Við ætlum svo að skiptast á að plötusnúðast og erum mikið að pæla í að skiptast á að vera búðarfólk, það gæti verið fyndið,“ segir Margrét.



„Við erum bara að fara að selja ógeðslega mikið af fötum og hlutum. Við Steinþór vorum að flytja svo við erum með fullt af dóti,“ segir Berglind Pétursdóttir. „Það verður fullt af ónotuðum hipsterafötum, sumt enn með verðmiðanum á. Vínilplötur og DVD á dúndurverði, glænýir gelluskór, loðfeldir, glimmerbuxur og gæjaleg vesti,“ segir Berglind.

„Björn ætlar svo að selja allar sínar veraldlegu eigur, því hann segist aðeins hafa morgundaginn til þess að lifa fyrir og vonina um að einn daginn muni hann bragða franskan ost.“

Markaðurinn verður eins og áður sagði á morgun, laugardag, á Bravó, sem er á horni Klapparstígs og Laugavegs frá klukkan 13-17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×