Lífið

Rísandi stjarna í raftónlist á landinu

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Nostalgísk fagurfræði - Pye Corner Audio er dulræn raftónlist.
Nostalgísk fagurfræði - Pye Corner Audio er dulræn raftónlist.
Í kvöld mun breski raftónlistarmaðurinn Pye Corner Audio troða upp í Mengi ásamt Good Moon Dear og DEEP PEAK en hann kemur aftur fram á Paloma Bar á morgun.

„Þetta er hugarfóstur Martin Jenkins, sem hefur skapað einhverja áhrifaríkustu raftónlist seinni ára,“ segir Bob Cluness, tónlistarblaðamaður og meðlimur FALK-hópsins sem flytur Pye Corner Audio inn.

 

Tónlistin hefur vakið töluverða athygli og tónlistarmiðlar á borð við The Quietus, Mojo, The Wire, Drowned in Sound og BBC hafa talað um hann sem einn af mest spennandi breskum tónlistarmönnum nútímans.

Bob Cluness.
„Pye Corner Audio er byggt á þeirri hugmynd að tónlistin sé endurútgáfa á gömlum snældum sem búnar voru til af dularfullum einstaklingi sem kallaði sig The Head Technician. Martin lýsir þessu sem leið til að firra sig ábyrgð frá tónlistinni,“ segir Bob en tónlistin er undir áhrifum frá hinni nostalgísku fagurfræði í kringum VHS spólur.

Aðalhugtakið í þessum hljóðheimi er „hauntological“ sem kemur upprunalega frá franska heimspekingnum Jacques Derrida. „Fólk á áttunda áratugnum hugsaði mjög mikið um framtíðina. Þetta skín í gegnum tónlist og sjónvarpsþætti tímans með framsýnni raftónlist eins og Vangelis og radíófónískri vinnustofu BBC, sem gerði tónlist fyrir vísindaskáldskap eins og Dr. Who. Stórskrýtin og tilraunakennd tónlist var semsagt notuð í meginstraumssjónvarpi, sem þú upplifir ekki mikið í dag,“ segir Bob. 

Hugmyndin í kringum Pye Corner Audio er því eiginlega hugmynd um framtíð sem hefði getað orðið. „Þetta hljómar eins og ef Delia Derbyshire hefði haft meiri áhrif á teknó og diskó heldur en Kraftwerk. Tónlistin skírskotar aftur í þessa sérstöku tegund módernisma sem lét sig dreyma um framtíðina og fljúgandi bíla.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×