Innlent

Lést vegna lyfjafíknar: „Læknirinn dældi lyfjum í dóttur mína“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Markús Kristjánsson segir reiðina út í lækninn og kerfið sitja þungt í honum en hann vonar að með sögu Elísabetar verði eftirlitið eflt.
Markús Kristjánsson segir reiðina út í lækninn og kerfið sitja þungt í honum en hann vonar að með sögu Elísabetar verði eftirlitið eflt. vísir/vilhelm
Dóttir Markúsar Kristjánssonar hét Elísabet og var 44 ára þegar hún lést í maí síðastliðnum. Hún hafði strítt við meltingarsjúkdóm en það var ekki meinið sem dró hana til dauða heldur misnotkun lyfja sem læknar ávísuðu á hana vegna sjúkdómsins.

Markús segir meltingarsérfræðing hennar hafa ávísað 2.220 töflum af ketogan, sterku morfínlyfi, á rúmlega hálfu ári í fyrra. Hann segir lækninn hafa hálfdrepið dóttur sína með því að hafa meðvitað dælt í hana lyfjum án frekara eftirlits með henni og skilur ekki hvernig slíkur maður fái að halda lyfjaleyfi sínu á meðan annar heilbrigðisstarfsmaður er saksóttur fyrir ein mistök af gáleysi.

„Ég viðurkenni að það versta við sorgina er reiðin sem situr eftir í manni,“ segir Markús. „Það breytir því ekki að mér finnst kerfið hafa brugðist dóttur minni, og einn læknir sérstaklega, sem hélt henni gangandi í fíkninni. Þess vegna finnst mér ég þurfa að segja þessa sögu. Það er alveg galið að á tæknitímum geti venjulegt fólk fengið mörg hundruð töflur í hverri viku og eyðilagt líf sitt á kostnað ríkisins án þess að nokkur skipti sér af því.“

Hún var reglumanneskja

Elísabet átti síðustu árin við meltingarvanda að stríða. Hún gekk til meltingarsérfræðings og læknirinn sem um ræðir sá um lyfjagjöf hennar. Hún fékk ketogan við verkjum, en lyfið er meðal annars notað til að lina kvalir krabbameinssjúkra og er afar ávanabindandi. Hún átti ekki sögu um fíkn eða óreglu en varð fljótt mjög háð lyfinu.

„Hún var enginn fíkill. Hún var reglumanneskja, kát og hress kona. Tveggja barna móðir, nýorðin amma og átti marga góða vini og kunningja. Hún átti lengi vel við þessar meltingartruflanir að stríða. Þurfti oft að fara á spítala og annað, en árið 2012 þegar hún fór til eins læknisins sagði hann beint út við hana að meltingin væri ekki vandinn í hennar lífi heldur væru stærstu veikindin ofnotkun á lyfjum. Það þýddi bara að hún fór ekki aftur til þessa læknis. Á þessum tíma var ekkert verið að vinna með meltingarsjúkdóminn, heldur eingöngu dælt í hana verkjalyfjum.“

Elísabet Markúsdóttir átti ekki við fíknivanda að stríða áður en hún fór að taka inn sterkt morfínlyf.
Var orðin 40 kíló 

Elísabet hríðhoraðist og þegar hún var orðin fimmtíu kíló var hún lögð inn á spítala til að gefa henni næringu í æð á nóttunni. Það gekk ekki upp og í apríl árið 2013 var hún orðin fjörutíu kíló og var lögð inn á geðdeild. 

„Heilbrigðisstarfsmenn skildu ekki af hverju hún tók ekki við næringunni. Ég fór heim til hennar þegar hún var lögð inn á geðdeild og þá fann ég umbúðir af ketogani úti um alla íbúð. Einnig voru umbúðir af svefnlyfjum og geðlyfjum. Pakkarnir fylltu næstum því heilan plastpoka og þeir voru flestallir merktir þessum meltingarsérfræðingi. Hún hafði sem sagt allan tímann verið að gleypa þessi lyf án þess að aðrir heilbrigðisstarfsmenn vissu það. Á þessum tímapunkti fékk ég nóg.“ 

Markús hafði samband við lækninn sem um ræðir en hann svaraði honum snubbótt og sagðist ætla að hringja síðar. Markús hefur ekki heyrt í honum eftir það. Hann hafði þá samband við landlæknisembættið og lagði fram kvörtun. Samkvæmt upplýsingum Markúsar fékk læknirinn fyrirspurn frá embættinu í kjölfarið, þar sem beðið var um útskýringar á magninu. Það breytti því ekki að hann skrifaði upp á hundruð af ketogantöflum ásamt öðrum svefn- og geðlyfjum næstu fimm mánuði á eftir. 

Læknirinn fékk áminningu

„Í ágúst lenti hún síðan í bílslysi. Hún var mjög lyfjuð og keyrði á vörubíl. Þetta slys var byrjunin á endinum. Þá hafði ég aftur samband við landlæknisembættið og var sagt af starfsmanni að málið væri alvarlegra en haldið var í fyrstu. Þá hefur embættið líklega fengið upplýsingar frá apótekum um lyfseðla læknisins, án þess að ég viti nokkuð um það þar sem manni er aldrei sagt neitt. Ég hringdi tvisvar í viku í tvo mánuði stanslaust í embættið til að ganga á eftir málinu. Að lokum var mér sagt að hann fengi alvarlega áminningu. Þegar ég spurði hvað það þýddi fékk ég að vita að fylgst yrði betur með honum og erfitt yrði fyrir hann að fá vinnu erlendis. Það er nú allt og sumt. Þessi maður vinnur enn á heilbrigðisstofnun og hann er með einkastofu og lyfjaleyfi. Þetta hefur ekkert breytt lífi hans. Þegar ég hringdi á vinnustað hans vissi stjórnandinn sem ég talaði við ekkert um þessa áminningu eða forsögu læknisins.“ 

Sprautaði sig með lyfjum

Það var svo í maí síðastliðnum að Elísabet var lögð inn á gjörgæslu vegna óstöðugs blóðþrýstings. Fáeinum dögum síðar var hringt í foreldra hennar og þau beðin um að koma á spítalann. Þá var Elísabet látin. Sennilegt er að hún hafi komist í töflur og sprautu og sprautað lyfjunum í brunn sem hún var með á sér og hjartað ekki þolað það. Það er stutt liðið, eingöngu fjórir mánuðir, og það tekur verulega á Markús að tala um þennan dag. 

„Ég varð trylltur. Ég var kominn heim að dyrum hjá þessum lækni en eitthvað kippti mér til baka. Hjúkrunarfræðingur á deildinni sagði að ef aðstandendur gera ekkert í málunum þá geri enginn neitt. Þannig sé það í þessu kerfi. En það er lítið hægt að gera núna eftir að hún er dáin og engar afleiðingar fyrir lækninn. Ég bara skil ekki, með allri þessari tölvuvæðingu, að það hringi engar viðvörunarbjöllur. Tæknin veldur því að dóttir mín hringdi stundum úr apótekinu beint í lækninn og fékk lyfseðil á mínútunni en tæknin veitir ekkert eftirlit. Hún fékk ótakmarkað magn af lyfjum án þess að hitta lækninn reglulega, en svo stundaði hún einnig að fara á læknavaktir til að fá lyf, sem hún fékk alltaf. Af hverju kemur ekki upp í tölvukerfinu að daginn áður fékk hún lyfseðil upp á hundrað töflur hjá sérfræðingnum? Hún fór á Grensás, Vog, geðdeild og lá inni á deildum Landspítalans. Það vissu allir að hún ætti við þessa fíkn að stríða en enginn tók í taumana.“ 

Ekki tekið á vandanum

Markús hefði viljað að dóttur hans væri veitt meðferð hjá geðlækni eða sálfræðingi. Þann mánuð sem hún var á geðdeild gekk henni vel en allt fór í sama farið þegar hún útskrifaðist. Eins veitti starfsfólk spítalanna sem hún dvaldi á henni og aðstandendum góða aðstoð en stuttar legur dugðu ekki til að taka á málinu. Hann segir vissulega auðvelt að fela lyfjanotkun í mörgum tilfellum en í tilfelli dóttur hans hafi hún verið svo augljós. Hann hefði viljað að fleiri hefðu spurt spurninga, að einhver hefði sett henni stólinn fyrir dyrnar og að hennar raunverulega vandamál, fíknin, hefði verið viðurkennt.

Honum hrýs hugur við að ef hann, faðir konu á fimmtugsaldri, hefði ekki barist í þessu máli undanfarin ár hefði ekkert verið aðhafst og læknirinn sem hann kallar dópsalann hefði ekki einu sinni fengið áminningu. Erfiðast þykir honum að hafa horft á dóttur sína hverfa inn í heim lyfjanna, hverfa frá börnum og fjölskyldu, „samkvæmt læknisráði“, eins og hann orðar það sjálfur. 

Umbúðirnar utan af ketogan sem Markús fann í íbúð Elísabetar þegar hún fór á geðdeild. Þetta var utan af um átta hundruð töflum.
Viðskipti Elísabetar við eitt apótek 

frá janúar til ágúst 2013

Elísabet tók út 2.220 ketogantöflur á rúmu hálfu ári sem 

meltingarsérfræðingurinn skrifaði upp á. Á þessu tímabili lá hún 

í mánuð inni á geðdeild.



Dæmi um úttekt af ketogan: 

1. mars: 100 stk. 

5. mars: 100 stk.

8. mars: 100 stk.

12. mars: 100 stk. 

18. mars: 100 stk. 

22. mars: 100 stk.

26. mars: 200 stk.



800 stykki á 25 dögum

eða 32 töflur á dag.



Önnur lyf sem Elísabet tók út og meltingarsérfræðingurinn sem og aðrir læknar ávísuðu:



Esopram:
 Sterkt þunglyndislyf

Phenergan: Róandi/svefnlyf

Sobril: Róandi og kvíðastillandi 

Oxynorm dispersa: Verkjastillandi og róandi 

Zopiclone: Verkjastillandi og róandi 

Quetiapin Mylan: Sefandi og notað til að meðhöndla geðklofa 

Imovane: Svefnlyf



Eingöngu sex sinnum tók Elísabet út lyf sem tengjast meltingarsjúkdómi hennar á beinan hátt.

Fjársvelti hefur áhrif á eftirlit 

„Eftirlit með lyfjaávísunum byrjar hjá læknunum sjálfum, svo á afgreiðslustöðum en einnig hjá Embætti landlæknis,“ segir Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjagagnagrunns hjá Embætti landlæknis. Embættið hefur með öðrum orðum eftirlit með læknunum. „Eftirlitið felst í reglubundnum skoðunum á ávísunum ásamt tilfallandi eftirliti. Svo koma ábendingar um sölu eða misnotkun lyfja til lyfjateymis. Þetta eftirlit hefur leitt til þess að læknar hafa fengið áminningar, misst læknaleyfi eða ávísanaréttur verið takmarkaður.“ 

Spurður hvernig það geti þá gerst að læknir ávísi þúsundum taflna á einn sjúkling á stuttu tímabili segir Ólafur að eins og staðan sé í dag sé ekkert kerfi sem láti vita um óeðlilega notkun. Ábendingar komi eftir á eða í gegnum aðstandendur. „Það er ekki þannig að kerfið flaggi einstakling í kerfinu miðlægt. Í fullkomnum heimi væru fleiri starfandi við eftirlitið og við gætum þá klárað rafrænan gagnagrunn sem er enn á tilraunastigi. En embættið er í fjársvelti.“ 

Tæplega 2.000 læknar ávísa ávanabindandi lyfjum og um 90 þúsund einstaklingar á Íslandi fá ávísað tauga- og geðlyfjum á hverju ári. Ólafur segir því verkefnið ekki lítið. Aðspurður segir hann ómögulegt að heimilislæknar hafi yfirsýn yfir alla sjúklinga sína. 

„Hver læknir er með svo marga sjúklinga og ekki nokkur leið að þeir geti fylgst með öllum sjúklingum sínum.“

Lyfjafræðingar bera líka ábyrgð

„Það er ekki eðlilegt að afgreiða stóra skammta, hér væntanlega þriggja mánaða skammt, með nokkurra daga millibili,“ segir Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, þegar hún er spurð um ábyrgð apóteksins í tilfelli Elísabetar. Hún segir að málið verði skoðað nánar á næstu dögum. 

„Samkvæmt reglugerð um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja, ber lyfjafræðingur ábyrgð á afgreiðslu lyfseðils og hefur eftirlit með að rétt sé afgreitt samkvæmt honum. Jafnframt skal sá sem afhendir sjúklingi eða umboðsmanni hans lyf fullvissa sig um réttmæti afhendingarinnar. Lyfjafræðingur getur einungis kallað fram upplýsingar úr tölvukerfum um afgreiðslur lyfja í sinni lyfjabúð. Slíkt er almennt ekki gert nema vakni grunur um að eitthvað sé ekki í lagi.“

Rannveig segir Lyfjastofnun hvetja lyfjafræðinga til að upplýsa stofnunina leiki grunur á að eitthvað sé ekki í lagi og stofnunin sendi upplýsingar áfram til Embættis landlæknis. „En Embætti landlæknis á að hafa eftirlit með ávísunum lækna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×