Lífið

Uppskeruhátíð trommara í dag

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Goðsögn í bransanum - Ásgeir hefur verið í fjölda hljómsveita.
Goðsögn í bransanum - Ásgeir hefur verið í fjölda hljómsveita.
„Það er mikil eftirvænting í loftinu,“ segir Halldór Lárusson, trommari og skipuleggjandi Trommarans 2014, sem fer fram í sal FÍH í dag á milli 13:00 og 18:00. Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin er haldin en samkvæmt Halldóri mætti kalla hana hálfgerða uppskeruhátíð trommuleikara.

Klukkan 14.00 hefjast tónleikar þar sem ýmsir trommarar munu berja húðirnar. Fyrstur er Þorvaldur Þór Þorvaldsson sem hefur spilað með Jónsa og Bloodgroup, síðan er Þorsteinn Gunnarsson sem hefur spilað með Stjórninni og Geira Sæm. Síðan tekur Við Pétur Grétarsson sem spilað hefur með Eyvöru og Sinfoníuhljómsveitinni og síðan klárar Ingólfur Sigurðsson úr SSSól og Orgil.

Ásgeir Óskarsson, trommuleikari Þursaflokksins og Stuðmanna verður síðan heiðraður fyrir sitt ævistarf. „Hann er goðsögn í bransanum og hefur verið í ótrúlega mörgum hljómsveitum,“ segir Halldór. Það er Sigurður G. Valgeirsson, trommari Spaða sem kynnir hátíðina.

Allt það nýjasta í trommubransanum verður til sýnis ásamt nokkrum gömlum hljóðfærum. „Það verður geisilega mikið af dóti til að skoða og það er voða gaman þegar gamlir félagar hittast aftur, sem hafa ekki sést í áratugi. Þetta er mikill félagsviðburður og hefur færst í aukana síðustu ár að alls konar fólk komi, ekki bara trommarar.“

Frítt er inn á hátíðina en 100 fyrstu gestirnir fá frían happamiða þar sem vinningar eru í boði frá helstu hljóðfæraverslunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×