Lífið

Er bara klassískur dægurlagasöngvari

Elín Albertsdóttir skrifar
Páll er klár í slaginn fyrir tónleikana í kvöld. Hann hefur fengið stóran hóp listamanna til að troða upp með sér, þar á meðal kór Lindakirkju.
Páll er klár í slaginn fyrir tónleikana í kvöld. Hann hefur fengið stóran hóp listamanna til að troða upp með sér, þar á meðal kór Lindakirkju. mynd/pjetur
Árið 1992 Páll Rósinkrans þegar Jet Black Joe var ein vinsælasta hljómsveit landsins og hann flottasti söngvarinn.
Páll Rósinkrans söngvari varð fertugur á árinu en jafnframt eru 25 ár síðan hann byrjaði að syngja opinberlega. Hann heldur upp á þessi tímamót með stórtónleikum í Háskólabíói í kvöld.

Páll segir að sannarlega hafi verið ástæða til að halda upp á þessi tímamót. Hann hefur fengið þekkta tónlistarmenn með sér og hlakkar mikið til kvöldsins. Páll lítur til baka og rifjar upp fyrstu hljómsveitina. „Ég var fimmtán ára og hún hét Edrú,“ segir hann og getur ekki varist hlátri. „Við vorum nokkrir strákar í Hafnarfirði sem stofnsettum hana. Þegar ég var sautján ára stofnuðum við Jet Black Joe,“ segir hann, en sú hljómsveit náði fljótt landsfrægð og Páll vakti mikla athygli sem söngvari. Strákarnir voru ungir að árum en gáfu strax út hljómplötu með frumsömdum lögum sem varð mjög vinsæl og stækkaði heldur betur aðdáendahóp hjómsveitarinnar við það.

Toppmenn og -konur



Páll er ekki starfandi í hljómsveit í dag en hefur nóg að gera sem „free-lance“ söngvari. Hann er vinsæll í brúðkaupum, jarðarförum, afmælum og stærri veislum víða um land. Páll hélt tónleika í Færeyjum í sumar og hann hefur nokkrum sinnum farið til Noregs þar sem hann hefur sungið fyrir þarlenda. „Það hefur verið mikið að gera hjá mér og næg verkefni fram undan. Verkefnin koma oft óvænt upp í hendurnar á manni,“ útskýrir hann.

„Undanfarið höfum við æft fyrir afmælistónleikana en ég hef fengið margt gott fólk með mér eins og Jóhönnu Guðrúnu og Margréti Eiri. Síðan verður minn gamli Jet Black Joe-félagi, Gunnar Bjarni, með mér. Gospelkór Lindakirkju kemur fram undir stjórn Óskars Einarssonar. Auk þess er ég með stórhljómsveit með Þóri Baldursson í fararbroddi. Þetta verður því mikil tónlistarveisla,“ segir Páll. „Eingöngu toppmenn og ég hlakka mikið til.“



Þreföld hljómplata frá ferli Páls er að koma í verslanir. Þar hafa öll bestu lög hans verið valin saman. „Platan var að koma til landsins og er að fara í dreifingu. Það er því allt að gerast,“ segir hann.



Óvænt í mars 2015



Þegar Páll er spurður hvort hann sakni þess að vera ekki í hljómsveit, svarar hann: „Því er kannski ekki einfalt að svara, það eru kostir og gallar við að vera í hljómsveit, svolítið eins og að vera í hjónabandi. Hljómsveitum fylgir líka ákveðið dansleikjahark,“ segir Páll og bætir því að honum finnist skemmtilegra að halda tónleika. „Ég hef áhuga á að halda fleiri tónleika á næstunni. Ég er að plana tónleika í mars á næsta ári sem verður spennandi verkefni. Með mér verður frægur bandarískur tónlistarmaður en þar sem verkefnið er stutt á veg komið og ekki búið að klára samningagerð get ég ekki nafngreint hann stax. Ég hef aldrei unnið með honum áður og hlakka mikið til.“

Í pabbahlutverkinu.

Páll er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði eins og margir aðrir þekktir tónlistarmenn. Þótt hann segist vera Hafnfirðingur í hjarta sínu þá býr hann ásamt konu sinni í Kópavogi. Páll á þrjú börn með þremur konum og er ófeiminn að viðurkenna það. Hann segist vera í góðu sambandi við börnin en dóttir hans, 15 ára, sem býr í Danmörku er í heimsókn þessa dagana. Elsti sonurinn er að verða 22 ára og hefur mikinn tónlistaráhuga. Yngsta barnið er sjö ára sonur. Páll var aðeins átján ára þegar eldri sonurinn fæddist og segir að ef hann hefði fetað í sín fótspor í þessum efnum væri hann sjálfur orðinn afi. „En þetta er skynsamur strákur.“

Páll hefur mikinn áhuga á skotveiði og hefur þegar nælt sér í nokkrar gæsir. „Ætli megi ekki segja að jólamaturinn sé kominn í hús. Reyndar er þó alltaf reyktur lambahryggur á aðfangadag hjá mér. Gæsin verður á borðum yfir hátíðir. Ég hef annars líka mikinn áhuga á líkamsrækt, hreyfingu og vellíðan.“

Þegar hann er spurður um trúna, en hann hefur alltaf verið trúrækinn, svarar hann: „Ég fer mikið í kirkju, syng oft gospellög og hef mjög gaman af þess konar tónlist. Annars hef ég stórt tilfinningasvið hvað varðar tónlist. Líklegast er ég bara klassískur dægurlagasöngvari. Á tónleikunum fá gestir að heyra sitt lítið af hverju sem ég hef gert um ævina. Við gáfum út þrjár plötur með Jet Black Joe en síðan hef ég gefið út átta sólóplötur.

En hvað verður svo gert á morgun að loknum tónleikum?

„Ætli ég sofi ekki út, fari svo í bíó með dóttur minni og við gerum eitthvað skemmtilegt saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×