Lífið

Auka hlutdeild áhorfenda með stafrænni miðlun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Auður Rán Þorgeirsdóttir stýrir ráðstefnunni sem haldin er af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er liður í formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni.
Auður Rán Þorgeirsdóttir stýrir ráðstefnunni sem haldin er af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er liður í formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni.
„Eins og við erum framarlega í stafrænum leiðum í þjónustu og öðru, til dæmis á Facebook, þá erum við ekki komin jafn langt í stafrænni miðlun lista og menningar hér á landi,“ segir Auður Rán Þorgeirsdóttir, verkefnastýra ráðstefnu um virkni og þátttöku áhorfenda í menningu og listum, sem haldin verður í næstu viku.

Skoðað verður hvernig áhorfendur geti átt hlutdeild í menningunni, ekki eingöngu með því að gera menninguna aðgengilegri, heldur með því að gefa fólki beina hlutdeild. „Þetta er leið fyrir menningar- og listastofnanir til að ná til yngri hópa. Í ákveðnum menningargeirum er áhorfendahópurinn að eldast og því er stóra áskorunin að endurnýja hópinn og ná upp nýju samtali við áhorfendur,“ segir Auður og bætir við að þannig sé mögulega hægt að ná í gesti sem annars mæti aldrei á sýningar.

Tölvuleikjaiðnaðurinn hefur náð þessu sambandi við sína notendur og mun fulltrúi frá EVE Online halda erindi á ráðstefnunni auk fjölda erlendra fyrirlesara. „Til dæmis er hægt að nota öpp á listasöfnum til að ýta undir þátttöku gesta. Það er til dæmis gert í Danmörku og þannig næst að virkja gestina, veita aukaupplýsingar og fá viðbrögð,“ segir Auður og bætir við að einnig verði rætt á gagnrýninn hátt hvernig og hvort það sé hægt að búa til jafn merkingarhlaðna reynslu í gegnum vefinn og með því að mæta á staðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×