Lífið

Störfuðu fyrir þýska hönnunarverslun

Freyr Bjarnason skrifar
Árni Már Erlingsson tók þátt í hönnun veggspjalda fyrir hönnunarvefverslun.
Árni Már Erlingsson tók þátt í hönnun veggspjalda fyrir hönnunarvefverslun.
„Þetta er meiriháttar,“ segir Árni Már Erlingsson, meðlimur hópsins Studio Festisvall.

Árni Már, Þorleifur Gunnar Gíslason og Geir Ólafsson voru á dögunum fengnir til að hanna fimmtán veggspjöld fyrir þýsku hönnunarvefverslunina MONOQI. Hún hefur frá árinu 2012 laðað að sér um 600 þúsund notendur. Verslunin sér um að handvelja áhugaverða og vandaða hönnun og selja í takmörkuðu upplagi í takmarkaðan tíma, eða í sjö daga í senn.

„Þetta kom þannig til að við vorum með myndlistarsýningu í Berlín í júní. Þá komu tveir aðilar frá vefsíðunni á sýninguna og buðu okkur að skoða samstarf í framhaldinu,“ segir Árni Már.

Veggspjöldin voru framleidd á nýstandsettu prentverkstæði Studio Festisvall í Berlín, sem Árni Már rekur ásamt Dóru Hrund Gísladóttu. Þar hafa þau komið upp höfuðstöðvum með aðstöðu til silkiprents þar sem þau prenta fyrir ýmsa kúnna samhliða eigin listsköpun og vinnu fyrir sýningar og samstarf undir nafni Festisvall. Studio Festivall byrjaði sem mynd- og tónlistarviðburður í samstarfi við menningarnótt en hefur þróast í fleiri sýningar og í tengslanet á milli ungra listamanna frá Íslandi og Þýskalandi.

Áhugasamir aðilar um veggspjöldin geta nælt sér í númerað eintak á Monoqi.com til 20. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×