Lífið

Ljósmyndari og geðlæknir skrifa vísindaskáldsögu

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Mikkel vísindaskáldsöguhöfundur og fyrirsæta Gísla Dúa ljósmyndara.
Mikkel vísindaskáldsöguhöfundur og fyrirsæta Gísla Dúa ljósmyndara.
Gísla Dúa Hjörleifssyni ljósmyndara og danska geðlækninum Mikkel Vossen Rasmussen varð vel til vina þegar þeir voru nágrannar í Árósum fyrir fimm árum. Í kjölfarið fóru þeir í ferðalag um Ísland þar sem Gísli Dúa var að viða að sér efni í ljósmyndabók.

„Hugmyndin að vísindaskáldsögunni The Lost Astronaut eða Týnda geimfaranum kviknaði á ferðalaginu. Við ákváðum að vinna frekar saman að bók, sem væri hvort tveggja ljósmyndabók og vísindaskáldsaga með geimfara og íslenska náttúru í aðalhlutverkum. Mikkel kom enda margt undarlega fyrir sjónir í ferðinni og hafði á orði að sér liði stundum eins og geimveru á Íslandi,“ segir Gísli Dúa. „Þess vegna er bókin næstum því sannsöguleg,“ bætir hann við.

Þótt Mikkel, höfundur sögunnar, skrifi á dönsku, kemur fyrsta prentun út í enskri þýðingu. Þeir félagar hafa verið með bókina í smíðum í fjögur ár og verkaskiptingin er skýr: Auk þess að taka ljósmyndirnar sinnir Gísli Dúi hvers kyns utanumhaldi; myndböndum, auglýsingum og því um líku. Mikkel er hins vegar höfundur sögunnar og jafnframt fyrirsæta Gísla Dúa. „Það kom sér vel að hann hafði fjárfest í grænum geimferðabúningi í Rússlandi löngu áður en vísindaskáldsagan varð að hugmynd. Hjálminn keyptum við hins vegar dýrum dómum á netinu,“ segir Gísli Dúa.

Hugmyndin að baki bókinni er m.a. sú að hún höfði til túrista, sem geti lesið söguna sér til ánægju og jafnframt gagns á ferðum sínum um landið. GPS-punktarnir við myndirnar eigi svo að leiðbeina þeim á söguslóðir. Til að eiga upp í útgáfukostnað leita Gísli Dúa og Mikkel styrktaraðila og áheita á síðunni Karolina Fund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×