Lífið

Íslendingar í rómantískri, þýskri mynd

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Kristbjörg Kjeld ásamt aðalleikkonunni Catherine Bode.
Kristbjörg Kjeld ásamt aðalleikkonunni Catherine Bode. Mynd/ZDF
„Í stórum dráttum ganga sjónvarpsseríurnar út á að Þjóðverji kemur til einhvers lands, lendir í alls konar ævintýrum og verður ástfanginn. Það sama er uppi á teningnum á Íslandi,“ segir Fahad Jabali, framleiðslustjóri sjónvarpsmyndarinnar Sommer im Island, sem þýska sjónvarpsstöðin ZDF framleiðir. 

Myndin er hluti af röð sjónvarpsmynda frá ZDF sem eru teknar upp í hinum ýmsum löndum og var á dagskrá stöðvarinnar síðastliðið sunnudagskvöld.

Auk leikstjórans, fulltrúa framleiðslufyrirtækisins og kvikmyndatökumannsins eru aðalleikkonurnar þýskar, eða þær Catherine Bode og Heike Trinker, sem leikur reyndar íslenska konu að nafni Freyja. Hvorug er stórstjarna en báðar þekkt andlit í Þýskalandi. Kristbjörg Kjeld, Jóhann Sigurðarson og Erla Brynjarsdóttir eru í nokkuð burðugum hlutverkum, sérstaklega Kristbjörg, sem leikur konu með tengsl við álfa. Aukaleikararnir eru íslenskir. Aukinheldur er íslenskt landslag í stóru hlutverki.

Í myndinni tala íslensku leikararnir óaðfinnanlega þýsku en raddirnar koma að vísu ekki úr þeirra barka heldur kollega þeirra í Þýskalandi. Fahad, sem tók að sér framleiðslustjórn Sommer im Island fyrir TrueNorth ehf., segir allt hafa verið afskaplega vel undirbúið eins og Þjóðverja sé von og vísa.



„Veðrið gátu þeir þó ekki skipulagt og fengu sýnishorn af alls konar veðri. Þeir vonuðust eftir sól allan tímann en því gátum við auðvitað ekki lofað. Myndin er 90 mínútur að lengd eins og aðrar í þessari seríu, sem ZDF hefur gert í mörgum löndum,“ segir Fahad. Þótt mest væri tekið á suðvesturhorninu var komið víða við, t.d. á Þingvöllum, bóndabæ rétt hjá Akranesi og í fjörunni við Vík.

Spurður hvort myndirnar í seríunni séu svolítið í ætt við svokallaðar póstkortamyndir fyrir túrista vill Fahad hvorki játa því né neita. „TrueNorth fékk fyrirspurn um fyrirgreiðslu og þjónustu frá framleiðslufyrirtæki ZDF í desember 2013 og tökur stóðu yfir í 22 daga síðastliðið vor. Allt gekk greiðlega fyrir sig, enda aðstandendur myndarinnar vanir menn,“ segir hann. „Fyrir þá var verkefnið hálfgerð rútína, handritið tilbúið, búið að ráða þýsku leikarana og við búnir að ráða þá íslensku og aðra starfsmenn svo sem leikmyndahönnuð og aðstoðarleikstjóra.“

Draumaprinsar á Íslandi

Söguþráðurinn gengur í stórum dráttum út á að aðalsöguhetjan, Jette, gengur á land í Stykkishólmi og er fyrr en varir búin að hitta draumaprinsinn. Í farangri Jette er aska Rosalie frænku hennar, sem einnig hafði hitt sinn draumaprins þegar hún réð sig í vinnu á Íslandi eftir stríðið. Hún sneri þó aftur til síns heima – makalaus. Hinsta ósk frænkunnar var að hvíla hjá stóru ástinni í lífi sínu að jarðvist beggja lokinni. Jette tekur sér fyrir hendur að uppfylla ósk frænku sinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×