Lífið

Íslendingar í næturstrætó í London

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Sesselía Ólafs í næturstrætó.
Sesselía Ólafs í næturstrætó.
Leikkonan Sesselía Ólafs leikur farþega í næturstrætó í Night Bus, nýjustu kvikmynd leikstjórans Simons Baker, sem frumsýnd var á London Film Festival síðastliðinn sunnudag.

Sjálf hefur Sesselía búið og starfað í London um sex ára skeið og oft tekið sér far með næturstrætó. „Ég leik farþega eins og allir hinir, enda fjallar myndin bara um farþega í strætisvagninum. Alls konar fólk, sumir eru friðsamir elskendur, aðrir vilja stofna til áfloga og allt þar á milli. Rétt eins og í veruleikanum.“

Sesselía svaraði auglýsingu á netsíðu fyrir leikara þar sem hlutverkunum var lýst og var ráðin. Hún segir ekkert aðalhlutverk í myndinni, og hún sé meðal hátt í fimmtíu leikara sem hver komi fram í um fjórar mínútur. „Kvikmyndin byggist á spuna, sem er frekar óvenjulegt. Baker leist vel á hugmyndir mínar en ég leik konu sem talar í farsíma við kærasta sinn á Íslandi,“ segir Sesselía og bætir við að myndin hafi fengið góða dóma.

Hún er ekki eini Íslendingurinn í næturstrætó Bakers. Þegar tökur voru hafnar kom í ljós að leikstjórann vantaði fleiri leikara og þá hóaði hún í kunningja sinn, Harald Ágústsson, sem mætti til leiks. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×