Skoðun

Metum tónlistarmenntun að verðleikum

Helga Mikaelsdóttir skrifar
Miðvikudaginn 22. október hafa meðlimir FT fyrirhugað verkfall ef ekki næst að samþykkja kjarasamning við Samband íslenskra sveitafélaga. FT er eina félagið innan KÍ sem ekki hefur fengið nýjan kjarasamning þrátt fyrir 10 mánaða bið. Hvað á það þýða?

Þetta fólk hefur margt hvert varið miklum fjármunum og tíma í að mennta sig í skólum víðs vegar um heiminn og komið heim með mikla þekkingu til að miðla til nemenda sinna. Á síðustu sjö árum hef ég hlotið tónlistarmenntun í Skólahljómsveit Kópavogs og nú í Tónlistarskóla Reykjavíkur og get ég því vottað að starf þessa fólks er gjörsamlega vanmetið meðal sveitarfélaganna. Það sem þetta fólk gerir á hverjum degi eru svo mikil kraftaverk að því er vart hægt að lýsa með orðum. Ekki nóg með að ég hafi lært að spila á hljóðfæri og lesa nótur heldur hef ég líka lært svo margt varðandi mannleg samskipti og aga.

Ég hef oft hugsað um hvað það væri gaman að vera tónlistarkennari og fá að taka þátt í framförum nemenda sinna og jafnvel hjálpa til við að búa til einhvern snilling. En þá fer maður að hugsa um launin. Er ég tilbúin að eyða fjölda ára í að mennta mig á hljóðfærið mitt og fá síðan ekki laun sem geta borgað námslánin…ég satt best að segja er ekki viss. Því miður held ég að það séu margir á mínum aldri á svipuðum stað. Ef það á að verða endurnýjun í stétt tónlistarkennara þarf að bæta kjarasamningana til þess að laða fleiri að en fyrst og fremst er kominn tími til að launa núverandi kennurum fyrir þeirra ómetanlega framlag til menntunar, með því að bæta kjör þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×