Hvað gaf herinn í Ósló þér? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 27. október 2014 07:00 Þegar íslenskir ráðamenn eru spurðir um stóra hríðskotabyssumálið verða þeir svolítið eins og þeir séu í Frúnni í Hamborg. Á þá kemur einbeitingar- og áhyggjusvipur og viðtalið verður eins og þeir séu með allan hugann við að segja ekki eitthvað sem má ekki segja – já eða nei, hvítt eða svart. Eða það sem verst er: að lenda í að segja satt.„Need-to-know-basis“ Allt er þetta geysilegt trúnaðarmál. Okkur íbúum þessa lands kemur þetta ekki við. Hér gildir ameríski frasinn úr leyniþjónustunum um að vera „on a need-to-know-basis“. Íslenska þjóðin er ekki hluti af því mengi og því eru ráðamenn á varðbergi þegar fulltrúar þjóðarinnar hjá fjölmiðlum koma askvaðandi og vilja fá nánari fregnir af þessum vopna- – tja – viðskiptum. Eða hvað þetta var. Frásagnir eru misvísandi hjá Norðmönnum og Íslendingum um þessi skringilegu viðskipti þjóðanna en álitamál er hvort er meira niðurlægjandi: að fá ókeypis vopn sem þeir stóru eru hættir að nota eða hitt, að þurfa að sækja sannleikann til Noregs, þar sem upplýsingafulltrúar líta á það sem hlutverk sitt að upplýsa almenning. Og til hvers þarf Landhelgisgæslan eiginlega hríðskotabyssur? Við stóðum í þeirri meiningu að það vantaði varðskip til að sinna lágmarkseftirliti. Fyrir utan alla hina sjöhundruðþúsund hlutina sem vantar lífsnauðsynlega hér eigi ekki allt að fara til fjandans. Og er ekkert af því byssur. Séu byssur vandamál á Íslandi eigum við að fækka þeim en ekki að fjölga þeim. Aðeins eitt tilvik er um það í seinni tíð að vopnaburður hafi leitt til andláts og það var þegar fársjúkur maður var skotinn af sérsveit lögreglunnar. Þetta var maður sem var talinn of hættulegur fyrir heilbrigðiskerfið og þess vegna látinn búa innan um börn og annað fólk í stórri og mannmargri blokk. Lærdómurinn sem við þurfum að draga af Hraunbæjarmálinu er sá að við þurfum betra heilbrigðiskerfi og færri byssur.Opin stjórnsýsla, traust Hvaða vopn? Það voru engin vopn! Þessi norsku? – þau voru ekkert keypt. Þau fengust bara gefins. Þau eru 100, nei 250, nei 150, eða eiginlega bara 30 þannig lagað. Og enn í geymslu. Þeir ætluðu að henda þeim. Þetta er bara endurnýjun, engin breyting og þær eru miklu betri ef það sé attack í skóla og maður þarf að hitta – og hættu að tala um þetta! Suss! Ekki tala hátt – glæpamennirnir heyra til okkar! Og nei, það má alls ekki segja heldur að við viljum vera vopnlaus því þá gætu glæpamennirnir frétt það líka. Eiginlega jafngildir það landráðum að minnast á vopn. Þetta er allt „on a need-to-talk basis“. Og meðal þess sem ekki má tala um eru þær hugmyndalegu forsendur sem liggja þessum vopnakaupum til grundvallar og glitti í þegar Jón Bjartmarz nefndi í Kastljósinu Gúttóslaginn í byrjun fjórða áratugarins, en þá var tekist á um launalækkun í atvinnubótavinnu í miðri kreppu og örbirgð og fór svo að verkamenn yfirbuguðu lögreglulið bæjarins og hætt var við launalækkunina, en vel að merkja látið þar við sitja, en ekki ráðist á stjórnarráðið eins og hefði mátt ætla ef þrautþjálfaðir byltingarmenn frá Moskvu hefðu verið að verki eins og Þór Whitehead er alltaf að reyna að telja okkur trú um. Þetta var sigurdagur en ekki sorgardagur. Fyrir vikið fengu nokkur lítil börn mjólkurdreitil sem þau hefðu ekki fengið ella og kannski ekki lifað til að vera afar og ömmur núlifandi Íslendinga. Þar á meðal kannski nokkurra lögregluþjóna. Lögreglan er nefnilega hluti af samfélaginu. Þau sem þar starfa koma úr þjóðardjúpinu og við vitum að þau sinna mikilvægum og vandasömum störfum; eru með fólki á erfiðustu stundum ævinnar, upplifa mikla harmleiki og þurfa oft að skerast í leik þar sem flestir myndu vilja forða sér. Ekki fer á milli mála að lögreglan vann afrek undir stjórn Stefáns Eiríkssonar í Búsáhaldabyltingunni við að lægja öldurnar þar sem það var gerlegt – og viðhalda trausti með stillilegri festu. Naumast er hægt að hugsa þá hugsun til enda hvernig farið hefði ef vopn hefðu þar komið við sögu. Sem sé, traust. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra nefndi það einmitt á dögunum. Hún hefur tilhneigingu til þess að ræða um gagnrýni á störf sín eins og þjóðfélagslega meinsemd. Nú síðast talaði hún um það í ræðu á Kirkjuþingi, að Íslendingar þyrftu sem þjóð að læra að treysta á ný – þ.e.a.s. henni; Hönnu Birnu. Hún ætlast með öðrum orðum til þess að við treystum því að hún sé ekki að bauka eitthvað á bak við tjöldin akkúrat núna enda hafi hún stundað stjórnsýslu fyrir opnum tjöldum, ef frá er talið þegar trúnaðarupplýsingum um erlendan hælisleitanda var blandað saman við uppspuna og lekið úr ráðuneytinu – og hún skipti sér þráfaldlega af lögreglurannsókn sem beindist að undirmönnum og aðstoðarmönnum hennar – og hún lét að því liggja að Rauði krossinn bæri ábyrgð á leka úr ráðuneyti hennar – og hún sagði þinginu að minnisblað væri ósambærilegt við annað samhljóða minnisblað – og 250 hríðskotabyssur voru keyptar eða fengnar á laun – sem sé: opin stjórnsýsla. Traust. Kannski er þetta öfugt: að ráðamenn þurfi að læra að treysta þjóðinni og hætta að fara í Frúna í Hamborg þegar þeir eru spurðir eðlilegra spurninga. Það er að segja ef þeir trúa því sjálfir að þeir hafi breytt rétt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Þegar íslenskir ráðamenn eru spurðir um stóra hríðskotabyssumálið verða þeir svolítið eins og þeir séu í Frúnni í Hamborg. Á þá kemur einbeitingar- og áhyggjusvipur og viðtalið verður eins og þeir séu með allan hugann við að segja ekki eitthvað sem má ekki segja – já eða nei, hvítt eða svart. Eða það sem verst er: að lenda í að segja satt.„Need-to-know-basis“ Allt er þetta geysilegt trúnaðarmál. Okkur íbúum þessa lands kemur þetta ekki við. Hér gildir ameríski frasinn úr leyniþjónustunum um að vera „on a need-to-know-basis“. Íslenska þjóðin er ekki hluti af því mengi og því eru ráðamenn á varðbergi þegar fulltrúar þjóðarinnar hjá fjölmiðlum koma askvaðandi og vilja fá nánari fregnir af þessum vopna- – tja – viðskiptum. Eða hvað þetta var. Frásagnir eru misvísandi hjá Norðmönnum og Íslendingum um þessi skringilegu viðskipti þjóðanna en álitamál er hvort er meira niðurlægjandi: að fá ókeypis vopn sem þeir stóru eru hættir að nota eða hitt, að þurfa að sækja sannleikann til Noregs, þar sem upplýsingafulltrúar líta á það sem hlutverk sitt að upplýsa almenning. Og til hvers þarf Landhelgisgæslan eiginlega hríðskotabyssur? Við stóðum í þeirri meiningu að það vantaði varðskip til að sinna lágmarkseftirliti. Fyrir utan alla hina sjöhundruðþúsund hlutina sem vantar lífsnauðsynlega hér eigi ekki allt að fara til fjandans. Og er ekkert af því byssur. Séu byssur vandamál á Íslandi eigum við að fækka þeim en ekki að fjölga þeim. Aðeins eitt tilvik er um það í seinni tíð að vopnaburður hafi leitt til andláts og það var þegar fársjúkur maður var skotinn af sérsveit lögreglunnar. Þetta var maður sem var talinn of hættulegur fyrir heilbrigðiskerfið og þess vegna látinn búa innan um börn og annað fólk í stórri og mannmargri blokk. Lærdómurinn sem við þurfum að draga af Hraunbæjarmálinu er sá að við þurfum betra heilbrigðiskerfi og færri byssur.Opin stjórnsýsla, traust Hvaða vopn? Það voru engin vopn! Þessi norsku? – þau voru ekkert keypt. Þau fengust bara gefins. Þau eru 100, nei 250, nei 150, eða eiginlega bara 30 þannig lagað. Og enn í geymslu. Þeir ætluðu að henda þeim. Þetta er bara endurnýjun, engin breyting og þær eru miklu betri ef það sé attack í skóla og maður þarf að hitta – og hættu að tala um þetta! Suss! Ekki tala hátt – glæpamennirnir heyra til okkar! Og nei, það má alls ekki segja heldur að við viljum vera vopnlaus því þá gætu glæpamennirnir frétt það líka. Eiginlega jafngildir það landráðum að minnast á vopn. Þetta er allt „on a need-to-talk basis“. Og meðal þess sem ekki má tala um eru þær hugmyndalegu forsendur sem liggja þessum vopnakaupum til grundvallar og glitti í þegar Jón Bjartmarz nefndi í Kastljósinu Gúttóslaginn í byrjun fjórða áratugarins, en þá var tekist á um launalækkun í atvinnubótavinnu í miðri kreppu og örbirgð og fór svo að verkamenn yfirbuguðu lögreglulið bæjarins og hætt var við launalækkunina, en vel að merkja látið þar við sitja, en ekki ráðist á stjórnarráðið eins og hefði mátt ætla ef þrautþjálfaðir byltingarmenn frá Moskvu hefðu verið að verki eins og Þór Whitehead er alltaf að reyna að telja okkur trú um. Þetta var sigurdagur en ekki sorgardagur. Fyrir vikið fengu nokkur lítil börn mjólkurdreitil sem þau hefðu ekki fengið ella og kannski ekki lifað til að vera afar og ömmur núlifandi Íslendinga. Þar á meðal kannski nokkurra lögregluþjóna. Lögreglan er nefnilega hluti af samfélaginu. Þau sem þar starfa koma úr þjóðardjúpinu og við vitum að þau sinna mikilvægum og vandasömum störfum; eru með fólki á erfiðustu stundum ævinnar, upplifa mikla harmleiki og þurfa oft að skerast í leik þar sem flestir myndu vilja forða sér. Ekki fer á milli mála að lögreglan vann afrek undir stjórn Stefáns Eiríkssonar í Búsáhaldabyltingunni við að lægja öldurnar þar sem það var gerlegt – og viðhalda trausti með stillilegri festu. Naumast er hægt að hugsa þá hugsun til enda hvernig farið hefði ef vopn hefðu þar komið við sögu. Sem sé, traust. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra nefndi það einmitt á dögunum. Hún hefur tilhneigingu til þess að ræða um gagnrýni á störf sín eins og þjóðfélagslega meinsemd. Nú síðast talaði hún um það í ræðu á Kirkjuþingi, að Íslendingar þyrftu sem þjóð að læra að treysta á ný – þ.e.a.s. henni; Hönnu Birnu. Hún ætlast með öðrum orðum til þess að við treystum því að hún sé ekki að bauka eitthvað á bak við tjöldin akkúrat núna enda hafi hún stundað stjórnsýslu fyrir opnum tjöldum, ef frá er talið þegar trúnaðarupplýsingum um erlendan hælisleitanda var blandað saman við uppspuna og lekið úr ráðuneytinu – og hún skipti sér þráfaldlega af lögreglurannsókn sem beindist að undirmönnum og aðstoðarmönnum hennar – og hún lét að því liggja að Rauði krossinn bæri ábyrgð á leka úr ráðuneyti hennar – og hún sagði þinginu að minnisblað væri ósambærilegt við annað samhljóða minnisblað – og 250 hríðskotabyssur voru keyptar eða fengnar á laun – sem sé: opin stjórnsýsla. Traust. Kannski er þetta öfugt: að ráðamenn þurfi að læra að treysta þjóðinni og hætta að fara í Frúna í Hamborg þegar þeir eru spurðir eðlilegra spurninga. Það er að segja ef þeir trúa því sjálfir að þeir hafi breytt rétt.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun