Skoðun

Hvað varð um loftslagsmálin?

Kamma Thordarson skrifar

Það var engin stemning fyrir loftslagsmálum fyrir síðustu kosningar.

Loftslagsvandinn hvarf samt ekki. Hann er enn til staðar. Það verður væntanlega ein birtingarmynd góðæris að hann verði að kosningamáli á ný. Nema það verði vegna hörmunga. Eða kynslóðaskipta meðal kjósenda.

Meðal þeirra sem brenna fyrir náttúruvernd og loftslagsmálum er umræðan sífellt háværari: Hvað varð um loftslagsmálin? Í pólitíkinni? Hjá fjölmiðlum? Skilur fólk ekki hvað þetta skiptir miklu máli? Veit fólk hvernig líf á jörðu væri við 2° eða 3° hlýnun?

100 manns ætla að vinna saman

Þessi mál eru mikilvæg sama hvort þau séu í tísku eða ekki. Að koma í veg fyrir hamfarahlýnun er langtímaverkefni sem krefst langtímahugsunar. Það er tímabært að eiga opið samtal um umhverfis- og loftslagsmálin og vinna síðan markvisst saman, þvert á samtök, stjórnmálaflokka og atvinnugreinar.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í slíku samtali eru velkomin á fund á morgun. Fréttir um fundinn hafa farið sem eldur í sinu um grasrótina. Sem stendur hafa fleiri en 100 manns skráð sig til leiks.

Fjölmargt til umræðu

Málaflokkarnir sem flestir fundargestir hafa áhuga á að ræða betur eru m.a. loftslagsmál, náttúruvernd, samgöngur, matvælaframleiðsla, votlendi, skipulagsmál, hringrásarhagkerfi, dýravelferð, umhverfisfræðsla, líffræðilegur fjölbreytileiki, verndun hafsins, orkumál og neysluhyggja.

Þátttakendur koma alls staðar að, margir úr grasrótarsamtökum sem láta sig náttúruvernd, dýravelferð og loftslagsmál varða, fólk frá mismunandi stjórnmálaflokkum og úr atvinnulífinu. Ungt fólk, gamalt fólk, allskonar fólk. Þetta verður veisla. Að sjálfsögðu er fólk hvatt til þess að koma með eigið kaffimál.

Hvað varð um umhverfismálin?

Fundurinn verður laugardaginn 15. mars frá kl 10:30-13:00 í stofu M201 í Háskólanum í Reykjavík.

Öll velkomin!

Skráning fer fram hér: Hvað varð um umhverfismálin?

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×