Innlent

Hornfirðingar fá betri gasmæli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Brennisteinsdíoxíð mældist upp undir tíu þúsund míkrógrömm á Höfn á sunnudag og allt að tuttugu þúsund í Hoffelli. Mengunin mældist um 1.400 míkrógrömm um miðjan dag í gær.
Brennisteinsdíoxíð mældist upp undir tíu þúsund míkrógrömm á Höfn á sunnudag og allt að tuttugu þúsund í Hoffelli. Mengunin mældist um 1.400 míkrógrömm um miðjan dag í gær. Fréttablaðið/Gunnþóra
Þrír loftgæðamælar á Reyðarfirði og einn á Egilsstöðum sendu ekki frá sér upplýsingar frá laugardegi fram á mánudagsmorgun vegna bilunar í gagnaflutningi. Mælir í Hornafirði pípti svo mikið vegna gasmengunar að rafhlaða sem átti að endast í þrjú ár tæmdist.

Mælarnir á Reyðarfirði og Egilsstöðum eru í eigu Alcoa. „Mælarnir söfnuðu upplýsingum en það bilaði einfaldlega gagnaflutningurinn frá þeim,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

Rafhlaða tæmdist í litlum handmæli sem verið hefur við dvalarheimilið á Höfn en þar á svæðinu hefur mengunin mælst mest undanfarna daga. „Hann var búinn að pípa stöðugt og það er greinilegt að þegar þessir mælar pípa gleypa þeir batteríin miklu hraðar,“ segir Þorsteinn og vísar til þess að rafhlaðan hafi átt að endast í þrjú ár.

Handmælir eins og sá sem notaður hefur verið á Höfn kostar að sögn Þorsteins innan við eitt hundrað þúsund. Sjálfvirku og nettengdu mælarnir sem senda frá sér gögn inn á síðu Umhverfisstofnunar kosta hins vegar þrjár og hálfa milljón króna. Þorsteinn segir nú unnið að því að setja upp slíkan mæli á Höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×