Skoðun

Brauð, en ekki vín

María Helga Guðmundsdóttir skrifar
Á blaðsíðu 22 í Fréttablaði fimmtudagsins 30. október 2014 birtist grein eftir Guðmund nokkurn Edgarsson sem ber yfirskriftina „Vín eða brauð?“. Í greininni er því haldið fram fullum fetum að sala áfengis í sérstökum verslunum sé að engu leyti frábrugðin því, ef ríkisvaldið ákvæði að banna sölu brauðmetis nema í sérstökum bakaríum.

Greinarhöfundur gengur enn lengra og segir orðrétt: „Nú kann einhver að hugsa, að ekki sé um sambærilega vöru að ræða, vín og brauð. Vín geti valdið skaða, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið, sé þess neytt í óhófi. Því er til að svara, að hið sama má segja um brauð. … Vín og brauð eru því sambærilegar vörur í þessu samhengi.“

Ég skora á Guðmund Edgarsson að nefna eitt einasta dæmi þess að maður hafi orðið öðrum að bana eftir að hafa neytt brauðs ótæpilega og sest undir stýri. Einnig myndi ég þiggja dæmi um fjölskyldu sem sundraðist vegna þess að fyrirvinnan var svo forfallin í brauðáti sínu að hún steypti fjárhag fjölskyldunnar í glötun til að fjármagna neysluna.

Hvert mannsbarn, sem þekkir til þess mikla böls sem áfengissýki er, sér að röksemdafærsla sem þessi nær ekki bara engri átt, heldur er helber móðgun við þær miklu þjáningar sem margir hafa liðið vegna þessa sjúkdóms. Ég vona að þeir sem eru fylgjandi sölu víns í matvöruverslunum sjái sóma sinn í því, héðan í frá, að beita ekki rökum sem gera lítið úr þjáningum áfengissjúklinga og annarra sem eiga um sárt að binda.

Einhvers staðar í grenndinni sitja jú foreldrar sem óska sér einskis heitar en þess, að sá sem keyrði drukkinn á barnið þeirra hefði nú bara verið sólginn í brauð en ekki vín.




Skoðun

Sjá meira


×