Íslenski boltinn

Ég gæti ekki spilað gegn Stjörnunni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Daníel fór á kostum eftir að Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Kaplakrika.
Daníel fór á kostum eftir að Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Kaplakrika. fréttablaðið/andri marinó
Daníel Laxal, varnarmaður Stjörnunnar, framlengdi í gær samning sinn við Stjörnuna til næstu þriggja ára. Daníel varð Íslandsmeistari með liðinu í sumar og hefur verið á mála hjá félaginu alla sína tíð. Hann á að baki meira en 200 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 10 mörk. Hann spilaði alla 22 leiki liðsins í sumar en Stjarnan tapaði ekki leik allt tímabilið.

„Það hafði ekkert félag samband við mig. Ég var svo sem búinn að gefa það út að ég vildi vera áfram í Garðabænum þannig að önnur lið voru ekkert að trufla mig,“ segir Daníel en hann segir það ekkert hafa heillað að prófa eitthvað nýtt á þessum tímapunkti á ferlinum.

„Ég held ég hreinlega geti ekki farið frá Stjörnunni því ég gæti ekki hugsað mér að spila gegn félaginu.“

Þó svo Daníel hafi verið með betri leikmönnum Pepsi-deildarinnar undanfarin ár þá hefur ekkert orðið úr því að hann færi í atvinnumennsku.

„Ég er hættur að hugsa um það núna. Hér áður hugsaði maður að það kemur á næsta ári en svo kom það aldrei. Ef það kemur þá kemur það en ég er ekkert að velta mér upp úr þessu lengur. Ég græt mig ekkert í svefn á kvöldin.“

Daníel er 28 ára gamall en lék sinn fyrsta deildarleik í meistaraflokki sumarið 2004, er Stjarnan lék í 1. deild karla. Hann er þegar orðinn leikjahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild og ætlar sér að bæta það met.

„Ég ætla að vera langleikjahæsti leikmaður Stjörnunnar. Það er markmiðið núna. Síðustu ár í Stjörnunni hafa líka verið frábær og vonandi höldum við áfram að byggja ofan á árangur sumarsins,“ segir Daníel en er hann að vonast eftir styttu af sér fyrir utan Samsung-völlinn? „Ég er að berjast við Rúnar þjálfara um að fá styttuna,“ segir Daníel léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×