Innlent

Taugafræðingur skýri mál sitt fyrir dómi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson vill að Wayne Squier beri vitni.
Sveinn Andri Sveinsson vill að Wayne Squier beri vitni. fréttablaðið/gva
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sigurðar Guðmundssonar, vill að Wayne Squier taugameinafræðingur verði látinn gefa skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til skýringar og staðfestingar á matsgerð í máli Sigurðar.

Sigurður var dæmdur í átján mánaða fangelsi í Hæstarétti árið 2003 fyrir að hafa valdið dauða níu mánaða drengs. Drengurinn var í daggæslu hjá Sigurði og þáverandi eiginkonu hans árið 2001. Sigurður hefur krafist endurupptöku á máli sínu fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt krufningarskýrslu var drengurinn talinn hafa látist úr Shaken baby syndrome, eða heilkenni ungbarnahristings. Sigurður hefur ávallt neitað sök og Sveinn Andri fékk doktor Squier, breskan taugameinafræðing, samþykktan sem dómkvaddan matsmann til að fara yfir málið að nýju.

Endurupptökunefnd hefur fengið kröfu um að málið verði tekið til meðferðar að nýju í Hæstarétti og Squier hefur skilað skriflegu mati þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að engin merki væru um að barnið hefði verið hrist. Sveinn Andri vill að Squier beri vitni um skýrslu sína í Héraðsdómi vegna endurupptöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×