Lífið

Býr til karlmannlegri hreindýrajólaóróa

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Jóhannes handsaumar borðana í óróann sjálfur.
Jóhannes handsaumar borðana í óróann sjálfur. Vísir/Valli
„Mig langaði svolítið að gera mótsvar við dönsku jólaóróunum. Það eru alltaf englar, jólatré eða snjókarlar,“ segir Jóhannes Arnljóts Ottósson, gullsmiður og skartgripahönnuður sem er búinn að hanna íslenskan jólaóróa. Óróinn er hannaður undir heiti NOX skartgripalínunnar.

„Ég kem frá Hornafirði og þar er mikið af hreindýrum og ég elst upp við að sjá þau og þaðan kemur innblásturinn fyrir óróann. Hugmyndin kom fyrir tveimur árum og ég byrjaði að teikna hann í janúar í fyrra,“ segir hann, en á óróanum, sem er úr gull- eða silfurhúðuðu sinki, er hreindýr.



NOX jólaóróinnVisir
Óróinn hangir í svörtum silkiborða, framan á honum stendur „Gleðileg jól“ á öllum norðurlandamálunum og aftan á er þýska, spænska og enska, en Jóhannes saumar borðana sjálfur. „Ég er búinn að sitja sveittur við saumavélina á milli þess sem ég parketlegg hérna heima hjá mér,“ segir hann. 

Óróana segir hann höfða til allra, en hann hefur tekið eftir því að yngri kynslóðin er hrifin af óróunum og þá sérstaklega strákarnir. „Á honum er hreindýr sem kannski höfðar meira til karlmannanna, en þeir eru yfirleitt ekki að eltast við jólaóróana. Fólki finnst þetta ferskara og er hrifið af því að safna einhverju sem amma og mamma myndu kannski ekki safna. Ég vildi líka hafa borðann svartan, ekki rauðan eða grænan eins og oft er,“ segir hann.

Óróinn kemur í svartri, silkiklæddri öskju og í henni fylgir saga tengd óróanum og stefnir Jóhannes að því að gera nýjan óróa fyrir hvert ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×