Veiði

"Laxlaus eftir 9 daga í lax í sumar, hættur þessu! "

Karl Lúðvíksson skrifar
Það er nokkuð mikið rætt um ástandið í ánum á milli veiðimanna í dag og það eru margir sem hafa töluverðar áhyggjur veiðileyfasölu á komandi ári.

Veiðileyfasala var erfið eftir sumarið 2012 og þrátt fyrir metveiði í mörgum ánum 2013 var erfitt að selja veiðileyfi í margar árnar það ár.  Nú upplifa veiðimenn annað lélegt ar og þá kemur upp umræða um verðlagningu veiðileyfa á ám sem klárlega eru ekki nálægt því að skila sínu.   Það sama var upp á teningnum eftir sumarið 2012 og veiðileyfasalar urðu þess klárlega varir að mikill samdráttur var í sölu laxveiðileyfa til innlendra veiðimanna og eftirspurn erlendra veiðimanna minnkaði líka.  Það voru fáar árnar sem voru seldar yfir 80% í sumar og líklegt að þær verði fleiri á næsta ári.  Um ástæður og kenningar á lélegri laxgengd í sumar verður ekki rætt í þessari grein heldur veltum við áfram nokkrum orðum sem veiðimenn, margir hverjir sem hafa stundað sömu árnar um árabil, hafa látið falla á samfélagsmiðlum.  Nöfn þeirra sem ummælin eru höfð eftir verða ekki birt.

"Er hættur i laxveiði og er bara í silung. Breytist kannski"



"Hef dregið mjög mikið úr veiði, hættur í lax og fer í stöku silungsá en mest í vötn bara orðið, þökk sé Veiðikortinu"

"Ég kemst í einn til tvo laxveiðitúra af ódýrari gerðinni á hverju ári en er hættur að fara í árnar sem ég var vanur að fara í því nú þarf að sleppa öllu.  Ætli ég skelli mér ekki bara í ódýra haustveiði í Ytri Rangá, þar má ala vega koma með heim í soðið fyrir sanngjarnt verð"

"Ég var vanur að eyða 200-300 þúsund í laxveiðileyfi á hverju sumri en er bara hættur að fara í lax.  Verðin hækka bara og veiðin er yfirleitt eins eða minni!"

"Er einhver bissness í dag að taka á á leigu fyrir morðfé og svo veiðist ekkert í henni?"

"Laxlaus eftir 9 daga í lax í sumar, hættur þessu! "

Þetta eru nokkur ummæli sem voru tekin af samfélagsmiðlum og er aðeins brot af yfirlýsingum innlendra veiðimanna á ástandinu í flestum ánum.  Þrátt fyrir þrýsting frá veiðimönnum um verðlækkanir er ólíklegt að af þeim verði því samningar liggja fyrir til lengri tíma um árnar.  Þegar árnar fara síðan á annað borð í útboð eru yfirleitt nokkur tilboð á borðinu og á meðan boðið er í árnar með því fyrirkomulagi sem nú er eru litlar líkur á verðlækkunum.  Undantekning á þessu virðist vera aðkoma nýrra leigutaka á Ytri Rangá en verðin þar lækkuðu um allt að 25% milli ára.







×