Bíó og sjónvarp

Serkis með tvö hlutverk í Star Wars

Andy Serkis (í miðjunni) á frumsýningu nýjustu Hobbita-myndarinnar ásamt Ian McKellen og Orlando Bloom.
Andy Serkis (í miðjunni) á frumsýningu nýjustu Hobbita-myndarinnar ásamt Ian McKellen og Orlando Bloom. Vísir/Getty
Orðrómur er uppi um að Andy Serkis fari með tvö hlutverk í Star Wars: The Force Awakens.

Samkvæmt vefsíðunni Jedi News leikur Serkis hefðbundna persónu og líka persónu sem hann talar fyrir. Hann er einmitt frægur fyrir að tala fyrir hinar ýmsu persónur, þar á meðal Gollum í Lord of the Rings og Hobbitanum, King Kong, apann Caesar í Planet of the Apes og Kolbein kaptein í Tinna.

Í hlutverkinu sem hann er sagður tala fyrir í Star Wars verður Serkis leiðtogi „hóps ótrúlegra persóna með íþróttamannslega hæfileika“. Í þeim hópi eru einnig leikkonan Crystal Clarke og Pip Anderson, sem er sérfræðingur í íþróttinni parkour. Hitt hlutverk Serkis verður smærra í sniðum en ku vera mikilvægt fyrir söguþráðinn.

Serkis staðfesti nýlega að hann hefði talað inn á fyrstu stikluna úr Star Wars: The Force Awakens sem kom út í síðustu viku. Netverjar töldu margir hverjir að leikarinn Benedict Cumberbatch hefði verið á bak við hljóðnemann en það reyndist ekki rétt. „Já, þetta er ég. Ég er viss um að Benedict þarf ekki á meiri athygli að halda í augnablikinu,“ sagði Serkis við Absolute Radio.

Star Wars-myndin er væntanleg í kvikmyndahús 18. desember á næsta ári í leikstjórn J.J. Abrams.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.