Hakkabuff með eggi á jólunum Vera Einarsdóttir skrifar 16. desember 2014 13:30 "Í dag notum við nautainnanlæri sem er marið niður með hamri. Við erum því ekki beint að borða Bónussparhakkið á jólunum." Fréttamaðurinn Kjartan Hreinn Njálsson ólst upp við að borða hakkabuff með eggi á aðfangadag. Hefðina má rekja til uppákomu sem varð á heimili föðurafa hans og -ömmu ein jólin. Þannig var að amma mín, Íris Backman, söng í kór og var hún vön að syngja í messu klukkan átta á aðfangadag. Ein jólin urðu hins vegar forföll í kórnum sem söng klukkan sex. Amma stökk til og kom þá í hlut afa, Skarphéðins Sveinssonar, að elda jólamatinn. Þegar amma kom heim beið hennar hakkabuff með eggi, skrældar kartöflur og steiktur laukur en það var það eina sem afi kunni að elda,“ lýsir Kjartan. Hann segist aldrei almennilega hafa heyrt hvernig amma hans brást við í fyrstu en það sem eftir sat var að þetta þótti fyndin uppákoma og var ákveðið að gera þetta að hefð. „Amma og afi áttu gommu af börnum og þeim fannst þetta herramannsmatur.“ Þegar börnin uxu úr grasi héldu þau hefðinni við. Kjartan þekkti því engan annan jólamat langt fram á unglingsár. „Þá fórum við að prófa hamborgarhrygg og þegar ég var í kringum átján ára aldurinn var hann á borðum um það bil önnur hver jól. Foreldrar mínir voru mjög hrifnir af buffinu en það fyndna er að eftir því sem á leið fóru æ fleiri í fjölskyldunni að hafa orð á því þegar buffið var á borðum hvað hamborgarhryggurinn væri nú frábær. Samt sem áður héldum við hefðinni við.“ Kjartan tekur þó fram að rétturinn hafi þróast umtalsvert í áranna rás. „Kjötið er til að mynda allt annað en var. Í dag notum við nautainnanlæri sem er marið niður með hamri. Við erum því ekki beint að borða Bónussparhakkið á jólunum.“ Móðir Kjartans féll frá fyrir allmörgum árum. Þegar faðir hans kynntist nýrri konu varð hún í fyrstu mjög hissa á jólamat fjölskyldunnar en tók hann fljótt í sátt. Faðir hans er nú líka fallinn frá en hefðin heldur áfram með ögn breyttu sniði. „Þegar ég stofnaði eigin fjölskyldu komumst við unnusta mín að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að buffið fengi að víkja fyrir hamborgarhrygg á aðfangadag. Við bræðurnir hittumst hins vegar alltaf með fjölskyldurnar okkar annaðhvort á milli jóla og nýárs eða rétt eftir jól og eldum þetta saman. Kjartan segir eldamennskuna oft ansi krefjandi enda fjölskyldan fjölmenn. „Við höfum stundum verið með þrjár plötur með í kringum 40 spæleggjum í ofninum í einu til að halda þeim heitum á meðan annað er að verða til. Þetta er þó að okkar mati órjúfanleg hefð. Við notum svo tækifærið og förum í gegnum gömul myndaalbúm og rifjum upp liðna tíð.“ Jólafréttir Jólamatur Mest lesið Ömmumatur sem klikkar aldrei Jól Villibráð að hætti Jóa Fel: Krónhjörtur, sveppablanda og steiktar perur Jólin Jóla-aspassúpa Jól Saltpækill gerir kalkúna safaríkari Jól Svona gerirðu graflax Jól Fylltar kalkúnabringur Jólin Fjórar ljúffengar uppskriftir að meðlæti Jól Uppskrift að piparkökuhúsi Jólin Brekkur til að renna sér í Jólin Sósan má ekki klikka Jól
Fréttamaðurinn Kjartan Hreinn Njálsson ólst upp við að borða hakkabuff með eggi á aðfangadag. Hefðina má rekja til uppákomu sem varð á heimili föðurafa hans og -ömmu ein jólin. Þannig var að amma mín, Íris Backman, söng í kór og var hún vön að syngja í messu klukkan átta á aðfangadag. Ein jólin urðu hins vegar forföll í kórnum sem söng klukkan sex. Amma stökk til og kom þá í hlut afa, Skarphéðins Sveinssonar, að elda jólamatinn. Þegar amma kom heim beið hennar hakkabuff með eggi, skrældar kartöflur og steiktur laukur en það var það eina sem afi kunni að elda,“ lýsir Kjartan. Hann segist aldrei almennilega hafa heyrt hvernig amma hans brást við í fyrstu en það sem eftir sat var að þetta þótti fyndin uppákoma og var ákveðið að gera þetta að hefð. „Amma og afi áttu gommu af börnum og þeim fannst þetta herramannsmatur.“ Þegar börnin uxu úr grasi héldu þau hefðinni við. Kjartan þekkti því engan annan jólamat langt fram á unglingsár. „Þá fórum við að prófa hamborgarhrygg og þegar ég var í kringum átján ára aldurinn var hann á borðum um það bil önnur hver jól. Foreldrar mínir voru mjög hrifnir af buffinu en það fyndna er að eftir því sem á leið fóru æ fleiri í fjölskyldunni að hafa orð á því þegar buffið var á borðum hvað hamborgarhryggurinn væri nú frábær. Samt sem áður héldum við hefðinni við.“ Kjartan tekur þó fram að rétturinn hafi þróast umtalsvert í áranna rás. „Kjötið er til að mynda allt annað en var. Í dag notum við nautainnanlæri sem er marið niður með hamri. Við erum því ekki beint að borða Bónussparhakkið á jólunum.“ Móðir Kjartans féll frá fyrir allmörgum árum. Þegar faðir hans kynntist nýrri konu varð hún í fyrstu mjög hissa á jólamat fjölskyldunnar en tók hann fljótt í sátt. Faðir hans er nú líka fallinn frá en hefðin heldur áfram með ögn breyttu sniði. „Þegar ég stofnaði eigin fjölskyldu komumst við unnusta mín að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að buffið fengi að víkja fyrir hamborgarhrygg á aðfangadag. Við bræðurnir hittumst hins vegar alltaf með fjölskyldurnar okkar annaðhvort á milli jóla og nýárs eða rétt eftir jól og eldum þetta saman. Kjartan segir eldamennskuna oft ansi krefjandi enda fjölskyldan fjölmenn. „Við höfum stundum verið með þrjár plötur með í kringum 40 spæleggjum í ofninum í einu til að halda þeim heitum á meðan annað er að verða til. Þetta er þó að okkar mati órjúfanleg hefð. Við notum svo tækifærið og förum í gegnum gömul myndaalbúm og rifjum upp liðna tíð.“
Jólafréttir Jólamatur Mest lesið Ömmumatur sem klikkar aldrei Jól Villibráð að hætti Jóa Fel: Krónhjörtur, sveppablanda og steiktar perur Jólin Jóla-aspassúpa Jól Saltpækill gerir kalkúna safaríkari Jól Svona gerirðu graflax Jól Fylltar kalkúnabringur Jólin Fjórar ljúffengar uppskriftir að meðlæti Jól Uppskrift að piparkökuhúsi Jólin Brekkur til að renna sér í Jólin Sósan má ekki klikka Jól