KR-ingar hafa misst nokkra lykilmenn frá síðustu leiktíð í atvinnumennsku. Baldur Sigurðsson, Kjartan Henry Finnbogason, Haukur Heiðar Hauksson og Óskar Örn Hauksson spila allir erlendis á næsta ári og Guðmundur Reynir Gunnarsson er hættur.
KR-ingar hafa þó náð að styrkja hópinn í haust. Pálmi Rafn Pálmason snýr aftur til Íslands eftir góð ár í Noregi og Rasmus Christiansen, fyrrum leikmaður ÍBV, kemur að öllu óbreyttu í KR eftir áramót. Það þarf þó meira til og Kristinn segir að KR-ingar séu að leita leiða til að fylla í þau skörð sem voru höggvin í leikmannahóp liðsins og séu í því tilliti fyrst og fremst að horfa út fyrir landsteinana, enda fremur óalgengt að íslensk lið kaupi leikmenn frá öðrum íslenskum liðum.
„Við erum ekki að leita að íslenskum leikmönnum þó að við útilokum ekki neitt,“ sagði Kristinn. „Fyrst og fremst erum við að horfa til útlanda,“ segir hann og staðfestir að danskir leikmenn séu helst í sigtinu.
„Það er alveg klárt mál að við munum bæta við leikmannahópinn og ef allt gengur upp ættum við að fá tvo menn í janúar eða febrúar – að minnsta kosti.“

„Ég gæti jafnvel trúað því að það verði metfjöldi erlendra leikmanna á Íslandi á næsta ári – miðað við hvernig markaðurinn er og hvað liggur í loftinu,“ segir Kristinn en eins og kemur fram hér fyrir neðan hafa lið utan höfuðborgarsvæðisins fengið mun fleiri erlenda leikmenn til sín en lið í Reykjavík og nágrenni.
Þó voru þrjú efstu lið Pepsi-deildar karla í sumar með mun fleiri erlenda leikmenn í sínum röðum á síðasta tímabili – Stjarnan sex, FH fimm og KR fjóra – og því langt yfir meðaltali sínu síðasta áratuginn.
Miðað við orð Kristins eru líkur á að sú þróun haldi áfram og lið á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram að leita út fyrir landsteinana, líkt og landsbyggðarliðin hafa reglulega gert síðustu árin.
