Innlent

Augnslysum vegna kröftugra flugelda fjölgar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Augnaðgerð Í verstu slysunum hafa hlífðargleraugu ekki mikið að segja.
Augnaðgerð Í verstu slysunum hafa hlífðargleraugu ekki mikið að segja.
Með aukinni notkun hlífðargleraugna hefur augnslysum af blysum og kraftlitlum flugeldum fækkað.

Hins vegar sýna tölur frá augndeild Landspítala aukinn fjölda slysa vegna mjög kröftugra flugelda, segir María Soffía Gottfreðsdóttir, augnskurðlæknir á augndeild Landspítala, í aðsendri grein á fréttavefnum Vísi í dag. Hún segir að svo virðist sem margir átti sig ekki á því hversu öflugir flugeldarnir eru orðnir.

„Í verstu slysunum vegna mjög kröftugra flugelda hafa hlífðargleraugu ekki mikið að segja og telja margir að takmarka beri aðgang almennings að allra kröftugustu flugeldunum,“ segir hún.

María Soffía segir að á Íslandi séu augnslys ein aðalorsök varanlegrar blindu hjá börnum. Að meðaltali hafi verið um tvö augnslys um hver áramót og geta áverkarnir verið allt frá smávægilegum bruna á augnlokum og yfirborði augans og yfir í alvarlegustu áverka þar sem augað hreinlega springur.

María nefnir nokkrar leiðir til þess að draga úr líkum á því að slys verði. Aldrei skyldi líta á flugelda sem leikföng og foreldrar þurfi að passa upp á börn og unglinga. Mikilvægt sé að nota hlífðargleraugu. Þá fari áfengisnotkun og flugeldar ekki saman.

Grein Maríu Soffíu má lesa í heild á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×