Innlent

Mikil framtíð í fiskeldi hérlendis

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Vinnsla regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi getur tvöfaldað veltu fyrirtækisins, segir verkefnisstjóri fiskeldis hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal. Tekjur vegna þessa geta numið allt að 5 milljörðum króna á ári.

Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal hefur nú leyfi til að framleiða 2000 tonn af þorski í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið sótti árið 2011 um að fá að framleiða 7000 tonn af regnbogasilungi en erfiðlega hefur gengið að fá tilskilin leyfi og málið flækst um í stjórnsýslunni í tæp þrjú ár. Verkefnisstjóri fiskeldis hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru segir að fyrirtækið eigi von á svari í haust en ljóst er að gríðarleg verðmæti eru í húfi.

„Kílóið af laxi og regnboga hefur verið svona innan við 1000, 800 krónur, syndandi fiskur við kví af réttri stærð. Þannig að þetta gæti auðveldlega verið verðmæti upp á rúma fjóra, fimm milljarða,“ segir Kristján Jóakimsson.

Hraðfrystihúsið Gunnvör vinnur um 11 til 12 þúsund tonn af slægðum fiski á ári. Aukning um 7000 tonn af regnbogasilungi myndi því stórauka umsvif fyrirtækisins.

„Gangi allt eftir erum við kannski að tvöfalda veltu fyrirtækisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×