Erlent

Aðskilnaðarsinnar sýndu fjölmiðlum eftirlitsmennina

Aðskilnaðarsinnar í úkraínsku borginni Slóvíansk sýndu fjölmiðlum í dag evrópsku eftirlitsmennina sem teknir voru í gíslingu á föstudag. Aðskilnaðarsinnarnir hyggjast nýta sér gíslanna í samningaviðræðum, en einum þeirra hefur nú verið sleppt úr haldi. 

Átta vopnaeftirlitsmönnum frá aðildarþjóðum Öryggis og samvinnustofnunar Evrópuvar rænt á föstudag þegar hópur aðskilnaðarsinna stöðvaði hópferðabifreið í útjaðri Slóvíansk. 

Aðskilnaðarsinnarnir segja eftirlitsmennina hafa verið á svæðinu í leyfisleysi og skilgreina þá sem stríðsfanga. Vjastjeslav Ponomarjov, sjálskipaður borgarstjóri í Slóvíansk, segir möguleika á að gíslarnir verði látnir lausir í skiptum fyrir fanga úr þeirra röðum sem eru í haldi Úkraínumanna.  

Í dag voru eftlitsmennirnir svo sýndir á blaðamannafundi í Slóvíansk. Þeir eru ómeiddir og við góða heilsu, en forsprakki þeirra sagðist ekki vita hvenær eða hvort þeir verði leystir úr haldi.

Fulltrúar frá ÖSE komu til Slóvíansk í dag í þeirri von að geta samið um frelsun gíslanna. Upp úr klukkan fimm í dag var svo einum eftirlitsmannanna sleppt úr haldi, en hann er sagður sænskur og talið er að honum hafi verið sleppt af heilsufarsástæðum. Ekki er ljóst hvort fleiri verða látnir lausir. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×