Lífið

Gerir upp Grænlands ævintýrið í myndum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Arctic Circle keppnin er 160 kílómetra, þriggja  daga kapphlaup um óbyggðir Grænlands.
Arctic Circle keppnin er 160 kílómetra, þriggja daga kapphlaup um óbyggðir Grænlands. mynd/baldurkristjáns
„Þetta er ólíkt þeim myndum sem ég hef tekið áður, það er mikill heimildarstíll á þessu,“ segir ljósmyndarinn Baldur Kristjánsson en hann fór nýverið í óvænta ferð til Grænlands til þess að mynda Jakob Jakobsson í Sisimiut og eiginkonu hans Sóleyju Kaldal, og son þeirra, Óla.

Öll húsgögn fjölskyldunnar úti voru second-hand og mátti því Óli litli leika sér og hoppa um að vild.mynd/baldur kristjáns
Kominn með flugmiða daginn eftir

„Ég var á kaffihúsi á sunnudegi þegar ég var að skoða instagrammið hans Jakobs og fannst það svo magnað,“ lýsir Baldur.

„Síðan sendi ég þeim skilaboð um að mig langaði til þess að koma og var svo heppinn að þau voru akkúrat í netsambandi og sáu þau um leið og næsta dag var ég kominn með flugmiða í hendurnar.“

Baldur ferðaðist til bæjarins Sisimiut á Grænlandi, þar sem búa rúmlega 5.000 manns, til þess að mynda daglegt líf fjölskyldunnar og undirbúning Jakobs fyrir keppnina Arctic Circle sem hann tók þátt í.

Frostið á sumum stöðum í Sisimiut fer niður í -32°C.mynd/baldurkristjáns
Vissu ekki mikið um Grænland

„Það er svo ótrúlega flott fyrir svona lítinn stað þar sem ekki er margt í gangi að hafa svona stóra keppni því bærinn umturnaðist og það voru einhvern veginn allir saman í þessu,“ segir Jakob, keppandinn sjálfur.

Þau Sóley fluttu til Grænlands þegar Sóley fékk vinnu sem menntaskólakennari en vissu þá ekki mikið um lifnaðarhætti Grænlendinga. „Við vissum varla hvort þarna væri rafmagn eða jafnvel læknir,“ segir Jakob og hlær.

Jakob Jakobsson kemur uppgefinn í mark í faðm fjölskyldunnar.mynd/baldurkristjáns
Byrjaði strax að mynda

Jakob segir það hafa komið þeim á óvart hve fljót þau voru að venjast því að hafa hversdagslífið ljósmyndað öllum stundum.

„Baldur byrjaði strax að taka myndir og fyrst var maður svolítið að leika eitthvert hlutverk en síðan vandist maður þessu smátt og smátt,“ lýsir Jakob.

Fjölskyldan naut lífsins í Grænlandi.mynd/baldurkristjáns
Sýning á Skólavörðustíg

Myndirnar sem Baldur tók af fjölskyldunni verða til sýnis á skiltum neðst á Skólavörðustíg, sem sett verða upp í kvöld og munu standa þar í tvær vikur.

Við eigum aðeins eina jörð.mynd/baldurkristjáns
    

  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.