Ríkisstjóri Missouri, Jay Nixon skipaði fylkislögreglu að taka við af lögreglunni Ferguson. Þeir höfðu mætt mótmælendum þungvopnaðir í óeirðabúnaði og á brynvörðum bílum. Þá höfðu þeir lent í átökum við mótmælendur og skotið táragasi, reyksprengjum og gúmmíkúlum að þeim. Einnig skutu þeir táragasi að fréttamönnum Al Jazeera.
„Það eina sem þeir gerðu þegar þeir sáu okkur var að skjóta táragasi á okkur,“ segir Pedro Smith við AP fréttaveituna. Hann hefur tekið þátt í mótmælunum frá upphafi. „Nú er komið fram við okkur af virðingu.“
Af 21 þúsund íbúum Ferguson eru um 70 prósent þeirra þeldökkir, en einungis þrír af 53 lögreglumönnum bæjarins.

Fylkisstjórinn skipaði Ron Johnson að leiða aðgerðir fylkislögreglunnar í Ferguson, en hann er þeldökkur. Í mótmælunum í gær gekk hann, ásamt öðrum háttsettum meðlimum fylkislögreglunnar, með mótmælendum.
„Við erum hér til að þjóna og vernda,“ sagði Johnson. „Ekki til að valda ótta.“
AP segir mótmælin í gær hafa farið friðsamlega fram og að einhverju leyti minnt á skrúðgöngu. Íbúar Ferguson buðu upp á ókeypis veitingar og tónlist var spiluð víða.
