Lífið

Börn í Palestínu styrkt

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Vinkvennahópurinn Fuglabjargið stendur fyrir söfnun fyrir börn í Palestínu á Kexi Hosteli á sunnudag.
Vinkvennahópurinn Fuglabjargið stendur fyrir söfnun fyrir börn í Palestínu á Kexi Hosteli á sunnudag. Mynd/einkasafn
„Við erum stór vinkvennahópur sem langar að láta gott af okkur leiða. Í ljósi aðstæðna í Palestínu og þeirrar miklu neyðar sem þar ríkir ákváðum við að taka okkur saman og halda söfnun,“ segir Svava Gunnarsdóttir, ein vinkonan úr vinkvennahópnum Fuglabjarginu sem stendur fyrir degi til styrktar börnum í Palestínu á Kexi Hosteli á sunnudaginn.

Um er að ræða dag sem helgaður er því að safna fé fyrir börn í Palestínu en ástandið þar er ansi slæmt sökum stríðsátaka og því ákaflega verðugt að styrkja blessuð börnin.

Svava og vinkonur hennar ætla að gera ýmislegt til að afla fjár fyrir börnin. „Við höfðum samband við starfsmenn Rauða krossins sem töldu að best væri að safna peningum sem myndu renna óskiptir í hjálparstarf þeirra á svæðinu og þá helst til barnanna sem eiga um sárt að binda á þessum erfiðu tímum. Við verðum með markað þar sem föt og fleira spennandi verður til sölu fyrir lítinn pening,“ útskýrir Svava.

Þær hafa fengið ýmsar vörur frítt frá ýmsum fyrirtækjum sem þær ætla selja og það fé sem safnast rennur beint í sjóð Rauða krossins. „Nú þegar höfum við fengið frábær viðbrögð frá þeim fyrirtækjum sem við höfum haft samband við. Við erum því mjög bjartsýnar á að vel muni takast til og fjölmargir muni láta sjá sig, eiga skemmtilegan dag og styrkja gott málefni í leiðinni.“

Pylsur, vöfflur og sælgæti verður til sölu og andlitsmálning fyrir börnin verður á staðnum. Einnig verður happdrætti þar sem fjölmargir frábærir vinningar verða í boði. „Við verðum með fatamarkað – erum að selja föt af okkur sjálfum, af börnum þeirra sem eiga börn í hópnum og karlaföt einnig,“ bætir Svava við.

Þá verður einnig lifandi tónlist á staðnum og hvetur Svava alla þá sem vilja r"tta hjálparhönd að leggja leið sína á Kex á sunnudag. „Margt smátt gerir eitt stórt.“

Viðburðurinn hefst klukkan 14.00 á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.