Lífið

Af jaðrinum í ríkisstofnun: „Er loksins orðin fullorðin!“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Erna á æfingu dansflokksins en hún hóf störf í vikunni.
Erna á æfingu dansflokksins en hún hóf störf í vikunni. vísir/stefán
Þetta er í fyrsta skipti sem ég er með skrifstofu, svara í símann og með tölvuna mína á sínum stað. Þetta er mjög fullorðins,“ segir Erna Ómarsdóttir, dansari og danshöfundur og nýráðinn listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins. „Mér fannst ég þurfa að fara í fínan jakka fyrsta vinnudaginn þannig að ég fékk einn lánaðan hjá mömmu. Ég ætla alltaf að vera voða fín á skrifstofunni því ég er búin að vera í æfingagallanum alla mína tíð.“

Erna er einn virtasti dansari og danshöfundur landsins og hefur unnið með fremstu dans- og sviðslistahópum Evrópu. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín sem listamaður, bæði hér heima og erlendis. Erna er þekkt fyrir að vera afar frumleg í verkum sínum og í raun á jaðrinum. Hún hefur verið kölluð Björk dansins og eru þær sagðar eiga meðal annars sameiginlegt að þora að taka áhættu og storka því hefðbundna. Það kom því eflaust einhverjum á óvart að Erna, sem hefur unnið í verkefnum víðs vegar um heiminn alla sína fullorðinstíð, væri orðin ríkisstarfsmaður í níu til fimm vinnu.

„Þetta kom sjálfri mér pínu á óvart. Þetta kom svo óvænt upp og margir hvöttu mig til að sækja um. Fyrst var ég ekki viss um að ég væri rétta manneskjan í þetta en svo fékk ég sterkt á tilfinninguna að þetta væri alveg rétt. Þetta er klárlega formlegri staða en ég hef áður verið í, en það þarf ekki að þýða að þetta verði voða alvarlegt eða leiðinlegra. Alls ekki.“

Erna og Valdimar í öskurklefanum.mynd/magnús andersen
Tekur við flokknum eftir átakavetur

Erna hóf störf núna í vikunni en Lára Stefánsdóttir sagði starfi sínu lausu hjá flokknum í mars síðastliðnum. Starfslokin voru sögð vera vegna listræns ágreinings en dansflokkurinn var töluvert í fréttum í vetur vegna óánægju og átaka innan flokksins. Hvernig er að taka við eftir slíkt? 



„Ég veit ekki alveg hvað gekk á enda var ég ekki þarna. Miðað við mína fyrstu daga finn ég mikinn kraft í flokknum og mín tilfinning er að fólk sé í stuði til að prófa eitthvað nýtt með mér. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir vetrinum.“ 

Erna er ráðin til eins árs og segir hún að ekki verði gerðar miklar breytingar á þeim stutta tíma. Óhjákvæmilega fylgi þó nýrri manneskju nýjar áherslur, nýtt tengslanet og ný sýn. 

„Ég mun ekki hrista upp í öllu og láta bara dansarana standa á sviðinu og öskra,“ segir Erna hlæjandi, en ein innsetning eftir Ernu er einmitt öskurklefinn þar sem Reykvíkingum var boðið að fá útrás með því að öskra úr sér lungun.

„Mig langar meðal annars til að fá efnilega, íslenska dansara og danshöfunda til að skapa með dönsurum flokksins. Við eigum svo mikið af flottu listafólki sem starfar erlendis og enginn veit af hér heima. Mér finnst eitt af hlutverkum dansflokksins vera að koma þeim á framfæri og nýta sköpunargáfuna sem við eigum. Auðvitað verður líka annað klassískara og gæðin alltaf í fyrirrúmi.“ 

Með Skyr Lee Bob fjöllistahópnum árið 2008vísir/stefán
Dansarar verða að vera sýnilegri

En af hverju ætli dansarar og danshöfundar fái svo litla athygli hér á Íslandi?

Erna segir að það vanti aukinn fjárhagslegan stuðning við dansinn hér á landi svo hann komist á flug og það sé ekki alltaf hægt að ætlast til þess að listamenn vinni frítt. Einnig eigi margir dansarar það sameiginlegt að vera feimnir og lítið fyrir að tjá sig í fjölmiðlum. Erna segir að dansarar verði að hrista það af sér. 

„Ég skil það samt alveg. Ég var sjálf mjög feimin en þetta fylgir starfinu. Við viljum hafa áhrif og þá verðum við að vera sýnileg. Ég er í þessu starfi af því að ég vil koma einhverju á framfæri. Annars væri ég bara í stofunni heima hjá mér að dansa fyrir framan spegilinn,“ segir Erna og bætir við að hún sé þó alls ekki alltaf svona sjálfsörugg.

„Það læðist alltaf að mér einhver efi þegar ég er að búa til verk og mér finnst ég aldrei tilbúin. En það er bannað að hætta við. Maður verður bara að halda áfram og þá gerist oft eitthvað stórkostlegt.“

Undanfarin ár hefur Erna starfað mestmegnis með manninum sínum, Valdimar Jóhannssyni. Þau reka sviðslistahópinn Shalala saman. Stundum vinna þau bara tvö saman en oft fá þau allt upp í tíu aðra listamenn í lið með sér. Þau hafa flakkað um alla Evrópu með verk sín og fengið frábærar viðtökur. 

„Við gerum eiginlega allt. Tónlist, dans, gjörning, bara allt sem okkur dettur í hug og mér finnst í raun og veru erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað við erum. Valdimar er meira að segja farinn að dansa í verkunum. Hann er svolítið stirður en rosalega flottur.“ 

Óðinn Úlfur og Urður Æsa, börn Ernu og Valdimars.
Tvö börn á þremur árum

Fyrir þremur árum eignuðust Erna og Valdimar sitt fyrsta barn, Úlf Óðin. Hann hefur flakkað með þeim um Evrópu þegar þau eru á sýningarferðalögum en þegar annað barn þeirra, Urður Æsa, var væntanlegt ákváðu þau að flytja til Íslands. 

„Við vorum búin að vera með annan fótinn á Íslandi en hinn í hinum ýmsu löndum. Við fundum að með tvö börn þyrftum við að koma okkur aðeins betur fyrir. Það er svo yndislegt að vera umvafinn fjölskyldu og vinum hér heima og við erum svo heppin að fá mikla aðstoð með börnin, svo við getum haldið áfram að skapa saman, ferðast um og sýna.“

Erna segist hafa verið á báðum áttum með hvort hún ætti að eignast börn. Hún hafi aldrei verið mikil barnagæla og ekki verið viss um að móðurhlutverkið samræmdist dansferlinum. Svo fóru vinkonur og systkini að eignast börn og hún fann hvað það var gefandi að elska svona litla veru. 

„Þetta gerir lífið og allt betra, og fer ótrúlega vel saman við sköpunarþörfina. Auðvitað hefur maður minni tíma, það er lítið félagslíf og maður vinnur bara og sinnir fjölskyldunni. Við Valdi vinnum náttúrulega mikið saman og svo bættust börnin við og það varð að einni heild. Eins og fjölskyldufyrirtæki. Þegar ég var ólétt notaði ég til dæmis bumbuna í verkum mínum. Maður breytir bara aðeins til og aðlagar, en börn stoppa ekki sköpunina.“ 

Á sýningaferðalagi á Ítalíu með börnin, nú í byrjun ágúst.
Vinnan er ástríða

En það eru breyttir tímar hjá þeim þar sem bæði eru komin í fasta vinnu. Börnin komin með dagvistun í vetur og veturinn verður því ólíkur því sem fjölskyldan hefur kynnst áður. Erna segir að þau séu loksins orðin fullorðin og hún óttast ekkert að henni muni leiðast það. 

„Við höldum áfram að sýna verk Shalala. Við vorum búin að skuldbinda okkur áður en ég var ráðin í þetta starf. Það verður bara hollt fyrir mig og dansara dansflokksins að ég þurfi að skreppa út einu sinni í mánuði þar sem ég fæ útrás fyrir sýniþörf mína og þau fá frí frá mér. Svona eins og í góðu ástarsambandi.“ 

Erna og Valdimar munu sýna nýtt verk eftir sig á Reykjavík Dance Festival í lok mánaðarins og vera með innsetningu á menningarnótt. Sú innsetning mun kallast Raddir Reykjavíkur þar sem boðið verður upp á hljóðbylgjunudd með öskrunum sem söfnuðust í öskurklefanum í fyrra. Erna og Valdimar munu því halda áfram að skapa saman þótt þau séu orðin svona líka fullorðin. 

„Þetta er ástríða sem bindur okkur saman. Við höfum oft reynt að fá pössun og eiga rómantískt kvöld án þess að tala um vinnuna. En það gengur aldrei upp. Þangað til við ákváðum bara að fá pössun og eiga rómantískt kvöld saman og tala allt kvöldið um vinnuna. Það var mjög rómantískt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.