Lífið

Stjörnur með Sveppa

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Leikararnir Unnsteinn Manuel, Villi, Sveppi og John Ingi Matta tæknimaður eru hér í góðum gír í tökum.
Leikararnir Unnsteinn Manuel, Villi, Sveppi og John Ingi Matta tæknimaður eru hér í góðum gír í tökum. Mynd/Bragi Þór Hinriksson
„Þetta er nú reyndar bara lítið hlutverk sem ég er með en ég fékk allavega búning,“ segir tónlistarmaðurinn Unnsteinn Manuel Stefánsson en hann fer með hlutverk í nýjustu mynd Sverris Þórs Sverrissonar, Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum.

Um er að ræða frumraun Unnsteins Manuels í kvikmyndaleik og kann hann vel við sig í leikarastöðunni. „Þetta var mjög gaman. Ég segi þó ekki mikið en þetta er flottur karakter sem ég leik. Ég næ að nýta reynsluna mína úr Skrekk sem ég tók þátt í árið 2005 og vann meira að segja,“ segir Unnsteinn Manuel. Frændi hans, Bragi Þór Hinriksson, leikstýrir og er annar höfunda myndarinnar, sem og allra fyrri myndanna. „Það er gaman að vinna með frænda.“

Tökur á myndinni hafi farið fram í allt sumar en þeim lýkur á mánudaginn. „Þetta hefur gengið alveg ljómandi vel, við höfum að mestu verið innandyra en um leið og við fórum í útitökur lét þessi gula sjá sig, við erum ánægðir með sólina,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, annar höfunda myndarinnar. Hann fer fögrum orðum um tónlistarmanninn. „Unnsteinn Manuel stóð sig eins og hetja og gerði það sem honum var sagt, það eru ekkert allir sem gera það sem þeim er sagt,“ segir Sveppi og hlær.

Nýja myndin ber titilinn Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum og er fjórða myndin í röðinni. „Ég persónulega hef ekki mikið umburðarlyndi gagnvart framhaldsmyndum og missi mig ekki ef Iron Man 4 kemur í bíó. Við vorum hins vegar meðvitaðir um þetta þegar við skrifuðum handritið og vissum að hún þyrfti að vera mjög góð til að standast þetta og hún gerir það sýnist mér,“ bætir Sveppi við.

Unnsteinn Manuel er þó ekki eina þekkta andlitið sem bregður fyrir í myndinni og er ekki þekkt fyrir kvikmyndaleik. „Það eru þarna höfðingjar á borð við Jóhannes Ásbjörnsson, Gunna samloku, Þórunni Ernu Clausen og Gulla Helga og þeir fara allir á kostum. Mér finnst svo gaman að fá fólk sem er ekki vant því að leika til að leika í myndinni. Við erum líka með kanónur eins og Hilmi Snæ Guðnason, ég verð að viðurkenna að ég fékk pínu í hnén þegar ég lék á móti honum,“ segir Sveppi.

Myndin, sem hentar fyrir alla fjölskylduna, verður frumsýnd 30. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.