Lífið

Smullu saman í eldhúsinu

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Vigdís Másdóttir og Viðar Reynisson deila mikilli ástríðu fyrir mat.
Vigdís Másdóttir og Viðar Reynisson deila mikilli ástríðu fyrir mat. vísir/valli
Vigdís Másdóttir, leikkona og ástríðukokkur, hitti fyrir jafnoka sinn í eldhúsinu þegar Viðar Reynisson giftist inn í fjölskylduna. Saman hafa þau kokkað í boðum og gefa hér lesendum uppskrift að fingramat.

Við deilum mikilli matarástríðu, ég og mágur minn, og smullum strax saman í eldhúsinu þegar hann giftist litlu systur minni. Við höfum tekið að okkur veisluþjónustu í fjölskylduboðum og höfum meira að segja rætt um að fara út í bissness,“ segir Vigdís Másdóttir, leikkona og matgæðingur, en hún og mágur hennar, Viðar Reynisson, gefa lesendum Fólks uppskrift að Empanadas.

„Ég var au-pair í Bandaríkjunum og Viðar skiptinemi í Venesúela. Empanadas er cheddar-ostur og beikon í brauði en í Bandaríkjunum eru notaðar kartöflur til að gera klatta eða bollur en maísbrauð í Venesúela. Þetta er frábær fingramatur. Með þessu er höfð salsasósa og svo skelltum við í ákaflega ferskan drykk sem bæði má drekka beint eða setja smá romm út í, ef maður er í stuði.“

Kartöflubollur með osti og beikoni í raspi

1 kíló kartöflur (soðnar og skrældar)

150 g rifinn cheddar-ostur

150 g rifinn svartur gouda

150 g rifinn parmesan 

4 msk. rjómi

3 egg

salt og pipar eftir smekk

brauðraspur (heimatilbúinn, helst úr hvítu brauði)

olía til steikingar

Kartöflum er stappað saman við ostana, rjómann og eitt egg. Blandan má ekki vera of blaut þá haldast bollurnar ekki saman (getið þykkt með hveiti).

Gerið litlar kúlur úr deiginu. Hrærið hin tvö eggin saman við vatn og rúllið bollunum í eggjunum og svo í raspnum og steikið á pönnu. Látið pappír á disk og leyfið bollunum að jafna sig í smá stund.

Empanadas með cheddar- og bacon-fyllingu

Uppskriftin inniheldur foreldað hvítt maísmjöl en hægt er að nálgast slíkt mjöl undir vörumerkinu P.A.N. í versluninni Austurlenskar matvörur í Brautarholti. 

Innihald

3 þykkar beikonsneiðar

200 g cheddar-ostur

6 dl foreldað hvítt maísmjöl (P.A.N. eða Masarepa)

1 msk. salt

7 dl. vatn

2 msk. matarolía

Chili-duft á hnífsoddi

Jurtaolía til steikingar, t.d. Canola

Aðferð

Steikið beikonsneiðar þar til þær eru orðnar nokkuð stökkar, saxið niður í litla strimla og setjið til hliðar. Rífið niður cheddar-ost og setjið einnig til hliðar. 

Setjið vatn, matarolíu og chili-duft í pott og náið upp suðu. Blandið maísmjöli og salti saman í skál. Hellið vatnsblöndunni út í miðja skálina í nokkrum skömmtum og blandið sífellt meiru af mjölinu saman við blautt deigið. Þegar deigið er tilbúið setjið þá plastfilmu eða lok yfir skálina, án þess að loka henni alveg.

Leggið plast á borðið, deigblöndu þar ofan á og annað lag af plasti yfir. Þrýstið deiginu niður og fletjið út með kökukefli þar til það er orðið 3-5 mm þykkt. Finnið þá hringlaga skál sem er 8-15 cm að þvermáli, og þrýstið niður líkt og þið séuð að skera út piparkökur. Takið efra plastið frá og setjið hæfilegt magn af cheddar og beikoni út frá miðjum bökunum. Því næst er flett upp á neðra plastið til að loka einni böku í einu og úr verða hálfmánar. Þrýstið á jaðrana, í gegnum plastið svo bökur lokist örugglega. Steikið bökur því næst á báðum hliðum upp úr mikilli olíu þar til þær eru orðnar gullinbrúnar.

Salsa

2 dósir niðursoðnir hakkaðir tómatar (látið allan vökva renna af)

6 cm (u.þ.b.) af gúrku (skafið fræin úr til að minnka vökvann)

1 chili

1 kínverskur hvítlaukur

handfylli ferskt kóríander

1 appelsínugul papríka

1 stilkur af selleríi

Safi úr 1 lime

salt og pipar eftir smekk

Hakkið hvert hráefni fyrir sig og reynið að ná sem mestum vökva frá. Blandið saman í skál og látið standa í klukkustund svo hráefnin „gerjist“ saman.

Límonaði með granatfræjum og myntu

Simple síróp með myntu og lime

Simple síróp

Granatepli

Sódavatn

Hvítt romm (má sleppa)

mulinn klaki

myntulauf til að skreyta

Sjóðið saman 50/50 sykur og vatn. Setjið sírópið í glerflösku og 4 stilka af myntu með blöðunum út í sírópið og börk af einu lime. Látið standa yfir nótt. Fræin úr granateplinu eru lögð í hreint simple síróp í tvo tíma.

1 msk. af granateplafræjum í hvert glas

mulinn klaki

1/3 myntu og lime-síróp (úr flöskunni)

Sjúss af hvítu rommi (ef romminu er sleppt er bara meira sódavatn í staðinn)

Fyllt með sódavatni

Skreytt með einu myntublaði






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.