Innlent

Nota sprengjur til að draga úr hættu á snjóflóðum

Tilraunir með að nota sprengjur til að draga úr hættu á snjóflóðum hér á landi hafa skilað góðum árangri að sögn forstöðumanns Snjóflóðasetursins á Ísafirði.

Snjóflóðasetrið á Ísafirði var stofnað árið 2004 og fagnaði tíu ára afmæli í gær. Í upphafi var aðeins einn starfsmaður en nú eru þeir sjö. Setrið hefur meðal annars það hlutverk að vinna að hættumati og rannsóknum á snjóflóðum en þar starfar einnig eini aurskriðusérfræðingur Veðurstofunnar.

Á síðustu árum hafa vísindamenn á vegum Snjóflóðasetursins unnið að tilraunaverkefni sem felur í sér að nota sprengjur til að framkalla snjóflóð. Harpa Grímsdóttir forstöðumaður setursins segir að tilraunir hafi skilað góðum árangri.

„Við erum að gera tilraunir með að sprengja niður snjóflóð bæði til þess að kanna hvort það sé hægt hérna á Íslandi að nota þessa aðferð til að draga úr hættu á snjóflóðum á ákveðnum svæðum og einnig til þess að rannsaka snjóflóðin þegar þau falla,“ segir Harpa.

Hún segir þó ekki hægt að nota þessa aðferð nálægt byggð.

„Þetta er víða notað erlendis og sérstaklega á skíðasvæðum og fyrir ofan vegi. Þá er viðkomandi vegi eða skíðasvæði lokað og snjóflóðin sprengd niður. Þegar snjóflóðið er fallið þá er ekki mikil hætta á öðru snjóflóði alveg í bráð,“ segir Harpa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×