Lífið

Féll í yfirlið á tónleikum Timberlake: Páll Óskar, sjúkraherbergi og týnd gleraugu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér sjást Stefanía, með gleraugun sín áður en þá týndust, og Rakel vinkona hennar. Sitthvoru megin við þær eru svo stjörnurnar Páll Óskar og Justin Timberlake.
Hér sjást Stefanía, með gleraugun sín áður en þá týndust, og Rakel vinkona hennar. Sitthvoru megin við þær eru svo stjörnurnar Páll Óskar og Justin Timberlake.
„Ég lá þarna meðvitundarlaus og ég er svo þakklát fyrir allt fólkið sem hjálpaði mér,“ segir Stefanía Hrund Guðmundsdóttir.  Á tónleikum Justin Timberlake sem fóru fram í Kórnum á sunnudagskvöld, leið tvisvar sinnum yfir hana. „Ég er ennþá aum í höfðinu, því ég skallaði gólfið í annað skiptið sem það leið yfir mig,“ útskýrir hún.

Í hitt skiptið sem hún féll í yfirlið greip Jón Eyþór Gottskálksson dansari hana. Jón dansar reglulega á sviði þegar Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður treður upp. Og voru þeir staddir þarna saman. Páll Óskar aðstoðaði einnig við björgunina.

Stefanía segir að atburðarrásin sem fylgdi í kjölfarið hafi í raun verið ótrúleg. Hún var lögð í sjúkrarúm baksviðs og lá þar þegar Justin Timberlake kom af sviðinu.

Sá að hún riðaði

„Ég sá að hún riðaði eitthvað. Ég sá að það var ekki allt alveg í lagi,“ rifjar Jón upp. Þegar Stefanía var við það að falla greip Jón hana. „Já, ég beygði mig niður og tók um fótleggi hennar. Ég sá að hana vantaði bara súrefni, þannig að ég lyfti henni upp, yfir skarann, þannig að hún fengi betra loft. Ég bar hana svo út úr mannmergðinni,“ segir hann.

Páll Óskar lýsir hetjudáðum dansarans: „Hann bara greip hana, þetta var ansi magnað. Ég reyndi að hjálpa til. Við spurðum fólkið í kringum okkur hvort það væri með vatn, en það voru allir búnir með vatnið sitt.“

Jón Eyþór og Páll Óskar skildu Stefaníu eftir í höndum vinkonu hennar Rakel Aspar sem hafði sótt hjálp. „Ég var tekin inn í herbergi þarna og lögð í sjúkrarúm,“ útskýrir Stefanía.

Tónleikar Timberlake voru ótrúlega vel heppnaðir.
Leið aftur yfir hana

Stefaníu var hleypt aftur á tónleikana, en þá virtist sem að hún hefði jafnað sig eftir að hafa fengið vatn að drekka. „En svo leið aftur yfir mig og ég skalf öll,“ útskýrir Stefanía . Þá var Stefanía aftur færð í herbergið baksviðs og þá var hringt á sjúkrabíl. Sjúkraflutningamenn töldu ekki tilefni til þess að fara með Stefaníu á spítala, heldur var fylgst með henni í Kórnum. Henni var gefið vatn og fylgst var með öndun, hjartslætti og fleiru. „Mér var haldið þarna inni alveg heillengi, örugglega alveg í tvo klukkutíma eftir að tónleikarnir voru búnir. Þeir vildu ekki hleypa mér heim fyrr en ég væri hætt að skjálfa.“ Stefanía lá þarna baksviðs og var vinur hennar með henn.

En veran baksviðs hafði ákveðin forréttindi í för með sér. „Ég lá þarna þegar Justin Timberlake kom af sviðinu. Hann var þarna bara nokkra metra frá okkur. Við áttuðum okkur eiginlega ekki almennilega á þessu fyrr en hann var farinn. Þetta var alveg ótrúlegt,“ útskýrir Stefanía.

Sjúkraliðarnir sem hlúðu að Stefaníu tjáðu henni að orsök yfirliðsins hefði væntanlega verið mikill hiti og ofþornun. Rakel Ösp ók henni svo heim, en Stefanía er búsett á Selfossi.

Þakklát fyrir hjálpina

Stefanía segist vera ótrúlega þakklát þeim mörgu sem hjálpuðu henni. Í bæði skiptin sem hún féll í yfirlið naut hún aðstoðar annarra tónleikagesta. „Mér var sagt að nokkrir ókunngir strákar hefðu verið þarna hjá mér og Rakel í annað skiptið sem það leið yfir mig. Ég er bara svo ótrúlega þakklát fyrir alla hjálpina. Mér finnst svo magnað hvað fólk var ekkert að velta fyrir sér að það væri að missa af tónleikunum og var tilbúið að hjálpa mér.“

Stefanía skrifaði um málið á Facebook og hefur síðan þá fengið skilaboð frá ókunnugum sem urðu vitni af þessu. „Ég man auðvitað lítið eftir þessu, nema einhverjum brotum. En ég er búin að fá skilaboð frá fólki sem sá þetta og það hefur hjálpað, mér þykir ótrúlega vænt um það.“

Í öllum hamaganginum týndust gleraugu Stefaníu, en nú er talið að þau séu fundin. „Ég fékk símtal frá starfsmönnum Kórsins. Þeir fundu gleraugu sem þeir halda að séu mín. Þeir eru búnir að senda þau og ég fæ þau væntanlega á morgun.“

Skemmti sér ótrúlega vel

Þrátt fyrir yfirliðið segist Stefanía hafa skemmt sér alveg ótrúlega vel. „Ég ætlaði ekki á tónleikana, en svo vann ég miða í einhverjum leik og fékk miðann bara þremur tímum fyrir tónleikana. Þetta var alveg ótrúlega gaman. Við vorum eiginlega alveg fremst allan tímann. Ég var eiginlega bara beint fyrir framan Justin og sá hann ótrúlega vel.“

Þegar það leið yfir Stefaníu var mikið búið af tónleikunum. Í seinna skiptið sem hún var færð inn í herbergið baksviðs var lagið Mirrors í gangi, en það var síðasta lagið sem söngvarinn bandaríski söng á tónleikunum.

„Ég er ennþá svolítið aum í höfðinu eftir fallið. En annars var þetta alveg ótrúlega magnaðir tónleikar,“ segir Stefanía.

Hér má sjá Justin og The Tennessee kids, hljómsveit hans.Vísir/Andri Marinó

Tengdar fréttir

GusGus byrjuð: Salurinn að fyllast

Töluverður kliður er í salnum í Kórnum þar sem GusGus hóf leik upp úr klukkan hálf átta. Íslenska hljómsveitin á að koma gestum í gírinn áður en Justin Timberlake stígur á stokk klukkan 21.

Justin ekki meðvitaður um tilvist Kópavogs

Varla hefur farið framhjá nokkrum að Justin Timberlake hélt tónleika á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þeir voru þó ekki í Reykjavík eins og bandaríski hjartaknúsarinn tönnlaðist á þær 100 mínútur sem hann tryllti lýðinn.

Sérstakur safabar fyrir Justin

Samkvæmt heimildum Vísis hefur fyrirtækið Joe & The Juice opnað safabar baksviðs á tónleikum Justin Timberlake.

Stemningin inni í Kórnum

Fjölmargir eru komnir inn í salinn þótt Gus Gus hefji ekki leik fyrr en klukkan 19:30.

Fólk flykktist á Justin

Ljósmyndari Vísis fylgdist með tónleikagestum mæta á svæðið í dag

Kórinn tæmdist á korteri

Það tók aðeins sextán mínútur fyrir alla sautján þúsund gestina á tónleikum Justin Timberlake að komast undir beran himinn í gærkvöldi.

Stærstu tónleikar sem haldnir hafa verið

Viðbúnaðar vegna tónleika stórstjörnunnar Justin Timberlake er sá mesti sem þekkist í kringum tónleika hér á landi og aðdáendur sem keyptu miða voru mættir snemma á tónleikastaðinn, sumir fimm klukkutímum áður en Timberlake stígur á svið.

Halda mikið upp á Justin Timberlake

Þessar stúlkur segjast vera miklir aðdáendur söngvarans. Þær mættu snemma, voru komnar fyrir utan Kórinn talsvert löngu fyrir opnun.

Justin Timberlake algjörlega heillaður af íslenskum áhorfendum

Samkvæmt heimildum Vísis sagði söngvarinn við samstarfsfólk sitt að íslenskir áhorfendur væru einhverjir þeir bestu sem hann hefur séð. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi var rífandi stemning á tónleikum gærkvöldsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×