Körfubolti

Bréf til KKÍ: Óásættanlegt ef Ólafur kemst upp með þessi ummæli

Ólafur á ferðinni í gær.
Ólafur á ferðinni í gær. vísir/valli
Síminn hefur vart stoppað hjá formanni KKÍ, Hannesi S. Jónssyni, síðan Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, lét ósmekkleg ummæli falla í sjónvarpsviðtali eftir leik Grindavíkur og KR í gær.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sagði við Vísi í dag að hann hefði einnig fengið talsvert af tölvupósti frá óánægðu fólki.

Vísir hefur undir höndum einn af þeim póstum sem KKÍ hefur fengið síðan í gærkvöldi og hann má sjá hér að neðan. Hann er frá kvenkynskörfuboltaáhugamanni.

Ólafur sá eftir orðum sínum og baðst afsökunar síðar um kvöldið.

Bréfið til KKÍ:

Ágæta stjórn KKÍ.

Takk fyrir flotta úrslitakeppni og góða skemmtun fram að þessu.

Þetta erindi mitt hér að neðan óska ég eftir að verði tekið til umfjöllunar innan KKÍ og ég óska eftir því að KKí grípi til þeirra úrræða sem sambandið hefur til að koma í veg fyrir að svona uppàkomur endurtaki sig.

Undirrituð sér sig knúna til vekja athygli à þeim orðum sem Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, lét falla í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik KR og Grindavíkur sem lauk rétt í þessu en þar líkti Ólafur sér og leikmönnum Grindavíkur við fermingarstelpur à túr.

Ólafur og aðrir leikmenn Grindavíkur töpuðu stórt í leiknum og því var alveg ljóst að í huga Ólafs var það ekki hrós til sín eða annarra leikmanna Grindavíkur að spila eins og fermingarstelpur à túr.

Nú er Ólafi kannski ekki kunnugt um það að hluti af körfuknattleiksheiminum à Íslandi eru fjölda margar fermingarstelpur og aðrar stúlkur og konur sem allar fara à túr. Hluti af àhangendum liða í deildinni, m.a. Grindavíkur eru líklega einnig à þeim aldri sem hann vísar til - og jafnvel à túr.

Leiki einhver vafi à því hve alvarleg ummælin eru hvetur undirrituð þà sem í vafa eru að skoða ummæli aftur og ímynda sér að Ólafur hefði haft þau um einhvern annan hóp sem við teljum að skuli njóta þeirrar virðingar að vera ekki svívirtur à almannafæri.

Það væri algjörlega óàsættanlegt ef leikmaður fengi að viðhafa slíkt orðfæri àn þess að leikmaðurinn sjàlfur eða félagið þurfi að sæta agaviðurlögum sem KKÍ getur gripið til. Því er þess óskað að KKÍ grípi til úrræða sem sambandið hefur til að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig.

Virðingarfyllst,

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir


Tengdar fréttir

Ólafur biðst afsökunar á ummælum sínum

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur í Dominos-deild karla í körfubolta, sér eftir ummælum sem hann lét falla eftir tap liðsins gegn KR í lokaúrslitum Íslandsmótsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×