Skoðun

„Ó, að það væri ennþá skott, aftan á rassi vorum“*

Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
Við erum nú meiri apakettirnir.

Getur verið að við höfum ekki áhuga á að tala um annað en daglegu smáhneykslin og smásigrana? Mér finnst fara lítið fyrir samræðu um „stóru málin“. Hvernig væri að ræða um þau? Til dæmis yfirvofandi næsta hrun? Fátækt? Loftslagsbreytingar? Hernaðarátök? Lyfja- og olíurisa?

Og síðast en ekki síst heldur best: Máttinn til að breyta þessum hörmungum öllum saman í framtíð og velferð? Sá máttur heitir samtakamáttur.

Hvað finnst ykkur, ættum við ekki að leita lausna? Breyta um lífsstíl og vinna meira saman? Kenna okkur sjálfum og krökkunum að daður við dægurvinsældir og dótarí gerir okkur að vitrænum, andlegum og tilfinningalegum aumingjum?

Það er mannlegt að kjafta saman. Samfélög eru byggð upp á kjaftæði. En þurfum við endilega að kjafta svona óskaplega mikið um ekki neitt?

Til þess að lifa af komandi hremmingar þurfum við hjartahlýju og gott siðferði, nægjusemi og útsjónarsemi, dugnað, virkni, hugvit og æðruleysi.

Það er ekki alveg að virka að vera apaköttur á 21. öldinni. Að minnsta kosti ekki þessi hárlitla og skottlausa tegund sem snýst í kringum sjálfa sig eins og enginn sé morgundagurinn.

*Vísubrot, ef til vill rangt munað.




Skoðun

Sjá meira


×