Hrossin fundust á sunnudag með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir sólahringsleit. Skrokkarnir voru dregnir upp úr vök á ísnum með aðstoð þyrlu frá Reykjavík Helicopters í gær og urðaðir í urðunarstöð á Álfsnesi.
„Starfsmenn Matvælastofnunar munu skoða það hlutlægt og afla eigin upplýsinga um málið,“ segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun.
Sigríður segir það fágætan atburð að hópur hrossa drepist með þessum hætti, þótt það þekkist að einstakir hestar farist í skurði. „Vanalega ana þau ekki út í svona aðstæður,“ segir hún.
Sigríður tekur undir að þetta hafi verið þungur vetur fyrir útigangshross en þau þoli erfiðar aðstæður vel. „Það eru allavega 70 eða 80 þúsund hross á útigangi á Íslandi. Þau hafa mjög mörg mátt standa af sér vont veður. Þau gera það með glans alla jafna. En auðvitað þarf fólk að passa upp á aðstæður. Draga úr líkum á því að svona lagað gerist,“ segir hún.
Sigríður segir að eigandi beri ábyrgð á því að dýrin hafi nóg að éta þótt auðvitað geti tekið fyrir aðgang að fóðri á meðan stórviðri ganga yfir. Eigendur þurfa að undirbúa slíkar aðstæður með því að fóðra vel fyrir og eftir slík áhlaup.



