Innlent

Höfum fengið 310 hríðskotabyssur frá norska hernum frá 2011

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir / Getty
Landhelgisgæslan hefur þrívegis á síðustu árum fengið vopn að gjöf frá norska hernum. Ríkislögreglustjóri óskaði eftir vopnum á síðasta ári og var gæslan milliliður vegna afhendingu 150 MP5 hríðskotabyssa í upphafi árs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gæslan hefur sent frá sér.

Þar kemur fram að 50 MP5 hríðskotabyssur hafi verið afhentar Íslendingum árið 2011, tíu MP3 hríðskotabyssur árið 2013 og 250 MP5 byssur í febrúar 2014. Auk þessara byssa hefur gæslan fengið fimmtíu hjálma og fimmtíu vesti. Aðeins fyrstu 50 byssurnar sem komu til landsins hafa verið teknar til notkunar. Allar byssurnar eru geymdar í vopnageymslu Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því við norsk stjórnvöld að fá vopn árið 2013. Landhelgisgæslan hafði milligöngu um málið og áttu 150 byssur af þeim 250 sem komu til landsins í byrjun árs að fara til ríkislögreglustjóra, samkvæmt yfirlýsingu gæslunnar.

Í yfirlýsingunni segir að gjafir sem þessar hafa ekki boðist gæslunni nema á nokkurra áratuga fresti og byggist á góðu samstarfi gæslunnar við hernaðaryfirvöld nágrannaþjóðanna. Þá leyfi fjárhagsstaðan Landhelgisgæslunnar ekki endurnýjun vopna nema að þau séu fengin að gjöf.

Fullyrt er í yfirlýsingunni að ekki sé um að ræða öflugari vopn en verið hafa í vopnasafni gæslunnar fram að þessu. „Landhelgisgæslan telur þetta eðlilega framkvæmd og nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda lágmarksöryggisbúnaði og í fullu samræmi við gildandi lög, reglugerðir og verklagsreglur sem gilda um vopnaeign og vopnaburð Landhelgisgæslunnar og felur þar af leiðandi ekki í sér neina stefnubreytingu í þeim efnum,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×