Fótbolti

Heimir: Jafntefli sanngjörn úrslit

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Við misstum aðeins einbeitinguna í stöðunni 1-0 og við hleyptum þeim í svæði sem við vildum reyna að loka á og við höfðum lokað vel á. Upp úr því kemur þetta víti og við fáum rautt spjald,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, þegar Vísir heyrði í honum í kvöld.

„Við fengum færi til þess að klára leikinn en nýttum þau ekki. Þeir fengu að vísu líka sín færi svo jafntefli voru kannski sanngjörn úrslit.“

Heimir var gríðarlega ánægður með Kristján Gauti Emilsson en framherjinn hætti aldrei að berjast í leiknum.

„Hann á hrós skilið því að hann virtist einfaldlega eflast við það að við misstum mann af velli og hann hætti aldrei. Þegar Jonathan fékk rautt fóru bakverðirnir þeirra upp og hann það opnaðist meira pláss fyrir hann.“

Heimir var nokkuð bjartsýnn fyrir seinni leikinn sem fer fram í Kaplakrika eftir viku.

„Við eigum fína möguleika eftir að hafa náð þessum úrslitum. Nú er þetta undir okkur komið að undirbúa okkur rétt fyrir seinni leikinn. Möguleikarnir eru til staðar og við verðum einfaldlega að nýta þá,“ sagði Heimir sem var gríðarlega ánægður með hvít-rússnesku borgina Grodna.

„Ég verð að viðurkenna það að þessi borg er frábær. Mjög falleg með fallegar byggingar og flottur völlur til að spila á. Ég gef þessari borg fína einkunn,“ sagði Heimir léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×