Bíó og sjónvarp

Lykilatriði að skemmta fullorðnum - þá fylgja börnin með

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Bragi Þór, Alfreð Ásberg hjá Sambíóunum og Sveppi.
Bragi Þór, Alfreð Ásberg hjá Sambíóunum og Sveppi. Mynd/úr einkasafni
„Aðstæður til kvikmyndagerðar voru ekki endilega jákvæðar en við ætluðum að gera myndina í fyrra. Það gekk ekki upp. Svo fengum við smá styrk og ætlum að æða í þetta,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi. Í vikunni var skrifað undir samning um fjórðu Sveppamyndina, Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum, en myndin verður sýnd hjá Sambíóunum í nóvember. Hætt var við framleiðslu myndarinnar í fyrra því hún fékk ekki styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands en í ár var annað uppi á teningnum.

„Við byrjum í tökum 21. júlí og verðum að því fram í miðjan ágúst. Það sem drífur okkur áfram er leikgleðin. Myndin verður í sama stíl og fyrri myndirnar og viljum við fyrst og fremst gera það að fara í bíó að skemmtilegri upplifun fyrir krakka eins og ég man eftir sjálfur þegar ég var lítill,“ bætir Sveppi við. Hann er dulur um söguþráðinn en getur aðeins gefið upp um nýju myndina.

„Vonda kallinum sem var í fyrstu myndinni, Algjör Sveppi og leitin að Villa, bregður fyrir. Við Villi njósnum aðeins um hann og þá kemur ýmislegt slæmt í ljós,“ segir Sveppi. Hann skrifar handrit myndarinnar ásamt leikstjóranum Braga Þór Hinrikssyni. Nú leita þeir að skemmtilegum aukaleikurum í myndinni.

„Við viljum ráða einhverja inn fyrir fullorðna fólkið og vera með einhver skrýtin andlit sem maður þekkir úr einhverju öðru en bíómyndum. Það er lykilatriði að skemmta fullorðnum, þá fylgja börnin með.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.